Fótbolti

Sjáðu blaða­manna­fund Ís­lands: Hamrén til­kynnti að hann myndi hætta

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erik Hamrén ræðir við fjölmiðla nú eftir skamma stund.
Erik Hamrén ræðir við fjölmiðla nú eftir skamma stund. STÖÐ 2 SPORT

Landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén og landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson ræddu við fjölmiðla fyrir leik Danmerkur og Íslands í Þjóðadeildinni sem fram fer á morgun. Þar kom fram að Hamrén mun hætta sem þjálfari landsliðsins að loknu þessu verkefni.

Í spilaranum má sjá blaðamananfund Íslands í heild sinni neðst í fréttinni.

Hamrén vildi ekki tjá sig meira um það að svo stöddu og frekar ræða leikinn gegn Dönum á morgun. Öll ræðuhöld yrðu geymd þangað til eftir leikinn gegn Englandi í næstu viku. Hann sagði að markmiðið hefði alltaf verið að komast á Evrópumótið og hætta svo í kjölfarið. Þar sem Ísland hafi ekki náð að tryggja sér sæti á mótinu þá myndi hann hætta núna.

Aron Einar viðurkenndi að það væri erfitt fyrir leikmenn að gíra sig upp í komandi leiki eftir vonbrigðin í Ungverjalandi. Leikmenn væru þó búnir að setjast niður, ræða saman og væru hægt og rólega að verða tilbúnir að nýju.

Varðandi meiðslin sem Aron varð fyrir þá segist hann vera betri en ekki viss hvort hann sé klár á morgun. Þá hrósaði fyrirliðinn Hamrén í hástert og sagði að samstarfið hefði verið frábært. Hann telur Hamrén hafa farið í gegnum mikið mótlæti sem þjálfari Íslands en lykilmenn hafa verið meiddir, spilað lítið hjá félagsliðum og svo hefur kórónufaraldurinn ekki hjálpað til.

Leikur Danmerkur og Íslands verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 klukkan 19.45 annað kvöld. Upphitun hefst klukkutíma fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×