Flugfélagið Norwegian Air hefur leitað til dómstóla á Írlandi vegna mikilla skulda. Um er að ræða viðleitni til að koma í veg fyrir gjaldþrot flugfélagsins á tímum kórónuveirufaraldursins.
Í yfirlýsingu frá Norwegian sem Reuters vísar til segir að leitað sé til dómstóla á Írlandi enda séu eignir félagsins skráðar á Írlandi.
Félagið segist hafa trú á því að nægjanlegt lausafé sé til staðar til að geta komist í gegnum ferlið. Flugfélagið er þriðja stærsta lággjaldaflugfélag í heimi og það stærsta erlenda sem flýgur til New York og fleiri stórborga í Bandaríkjunum. Í lok september námu skuldir félagsins um þúsund milljörðum íslenskra króna.
Sex af 140 flugvélum félagsins eru í notkun sem stendur enda liggja almenn ferðalög svo til niðri á tímum kórónuveirufaraldursins. Norska ríkisstjórnin hafnaði í síðustu viku beiðni flugfélagsins um frekari stuðning.