Innlent

Hefur áhyggjur af partístandi og veisluhöldum á aðventunni

Nadine Guðrún Yaghi og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir tölur dagsins ekki koma á óvart þó hann hefði viljað sjá þær lægri. 
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir tölur dagsins ekki koma á óvart þó hann hefði viljað sjá þær lægri.  Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur mestar áhyggjur af veisluhöldum á aðventunni eins og staðan er í dag. Fimmtán manns greindust smitaðir af kórónuveirunni innanlands síðasta sólarhringinn og voru aðeins tveir utan sóttkvíar. Ekki hafa fleiri greinst síðan 13. nóvember. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hann hefði viljað sjá færri smit í tölum dagsins þó þær komi ekki á óvart.

„Það voru tíu alls í gær en þetta eru náttúrulega lang flestir í sóttkví og við vitum það að við eigum eftir að fá fleiri tilfelli úr þeim hópi þannig það kemur manni ekkert á óvart.  Það er ánægjulegt að sjá að það voru bara tveir utan sóttkvíar,“ segir Þórólfur. 

Hann segir að það muni taka einhvern tíma að ná smitunum alveg niður. „Ég held að maður þurfi bara að vera aðeins þolinmóður.“

Ef vel eigi að ganga þurfi fólk áfram að huga vel að sóttvörnum. „Það eru kannski þessi veisluhöld og partístand sem maður hefur mestar áhyggjur af, að fólk fari ekki að missa sig í því núna á aðventunni og yfir jólin,“ segir Þórólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×