Tónlist

Hildur tilnefnd til Grammy-verðlauna í annað sinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hildur með Grammy-verðlaunin sem hún vann til fyrir tónlistina í Chernobyl. Hún er nú tilnefnd til tvennra Grammy-verðlauna fyrir tónlist sína í Joker.
Hildur með Grammy-verðlaunin sem hún vann til fyrir tónlistina í Chernobyl. Hún er nú tilnefnd til tvennra Grammy-verðlauna fyrir tónlist sína í Joker. Alberto E. Rodriguez/Getty

Hildur Guðnadóttir tónskáld hefur verið tilnefnd til tvennra Grammy-verðlaunanna 2021. Annars vegar í flokki frumsaminnar kvikmyndatónlistar fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker og fyrir bestu útsetningu fyrir tónverkið Bathroom Dance, úr sömu kvikmynd. Verðlaunahátíðin fer fram í lok janúar á næsta ári.

Þetta er í annað sinn sem Hildur er tilnefnd til hinna virtu tónlistarverðlauna fyrir tónverk sitt en hún vann verðlaunin í ár fyrir tónlistina í þáttunum Chernobyl.

Hildur er langt frá því að vera óvön því að veita verðlaunum viðtöku, en fyrir tónlistina í Joker hefur hún unnið til Golden Globe-, BAFTA- og Óskarsverðlauna, auk fjölda annarra verðlauna.

Þau sem eru tilnefnd með Hildi í flokki frumsaminnar kvikmyndatónlistar eru Max Richter fyrir tónlistina í kvikmyndinni Ad Astra, Kamasi Washington fyrir tónlistina úr heimildamyndinni Becoming, Thomas Newman fyrir tónlistina úr kvikmyndinni 1917 og John Williams fyrir tónlistina úr Star Wars: The Rise of Skywalker. Tveir síðastnefndu voru einnig tilnefndir til Óskarsverðlauna á þessu ári en þar bar Hildur sigur úr býtum.

Sinfóníuhljómsveitin og Daníel Bjarnason einnig tilnefnd

Hildur er þó ekki eini fulltrúi Íslands á Grammy-verðlaununum 2021. Hljómdiskur Sinfóníuhljómsveitar Íslands , Concurrence, undir stjórn Daníels Bjarnasonar, er tilnefndur til verðlaunanna í flokki besta hljómsveitarflutningar.

Í tilkynningu á vef Sinfóníuhljómsveitarinnar segir:

„Á disknum flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands, undir stjórn Daníels Bjarnasonar, ný verk eftir fjögur íslensk tónskáld: Önnu Þorvaldsdóttur, Hauk Tómasson, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur og Pál Ragnar Pálsson. Einleikarar með hljómsveitinni eru Sæunn Þorsteinsdóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson.“

Þetta er í annað sinn sem Sinfóníuhljómsveit Íslands er tilnefnd til Grammy-verðlauna. Það gerðist fyrst árið 2009, og þá í sama flokki og nú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.