Innlent

Víðir segir að ekkert gangi að rekja smit hans og konunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Víðir Reynisson verður í einangrun næstu fjórtán dagana eða svo. Honum líður ágætlega eftir því sem fram kemur í tilkynningu almannavarna.
Víðir Reynisson verður í einangrun næstu fjórtán dagana eða svo. Honum líður ágætlega eftir því sem fram kemur í tilkynningu almannavarna. vísir

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra hefur greinst með COVID-19. Hann segist í samtali við fréttastofu að smit hafi verið viðbúið eftir að eiginkona hans greindist með smit á mánudaginn..

Sjálfur segist Víðir einkennalaus en kona hans sé aðeins slöpp. Ekkert gangi hins vegar að rekja hvernig kona hans smitaðist. Stór hluti smita sé þó þannig að hægt gangi að rekja uppruna þeirra.

Viðtal Berghildar Erlu Bernharðsdóttur við Víði má sjá hér að neðan.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að Víðir og hans nánasta samstarfsfólk auk Ölmu Möller landlæknis og Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis hafi farið í sýnatöku á mánudag. Sýni þeirra allra reyndust neikvæð á mánudagskvöld.

Víðir fór aftur í sýnatöku í dag og reyndist sýni frá honum jákvætt. Hann finnur ekki fyrir einkennum og er kominn í einangrun. 

„Í ljósi þess að sýni frá Víði reyndist neikvætt á mánudag þykir ekki ástæða til þess að hans nánasta samstarfsfólk fari í sóttkví,“ segir í tilkynningu frá almannavörnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×