Innlent

Engin þyrla til­tæk og ó­eining sögð innan ríkis­stjórnar um lög á verk­fallið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá samningafundi í deilu flugvirkja Gæslunnar og ríkisins fyrr í vikunni.
Frá samningafundi í deilu flugvirkja Gæslunnar og ríkisins fyrr í vikunni. Vísir/Vilhelm

Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, hefur boðað samninganefndir flugvirkja Landhelgisgæslunnar og ríkisins til fundar klukkan níu í dag.

Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, hefur boðað samninganefndir flugvirkja Landhelgisgæslunnar og ríkisins til fundar klukkan níu í dag.

Eins og kunnugt er eru þeir flugvirkjar Gæslunnar sem sinna viðhaldi á björgunarþyrlum í verkfalli sem hófst þann 5. nóvember.

Engin þyrla hefur verið til taks hjá Landhelgisgæslunni frá því eftir miðnætti í nótt vegna reglubundinnar skoðunar einu starfhæfu þyrlu Gæslunnar. Ljóst er að engin þyrla verður tiltæk að minnsta kosti fram á helgina.

Dragist verkfallið á langinn verður engin þyrla tiltæk hjá Gæslunni eftir 14. desember. Í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag kemur fram að í dómsmálaráðuneytinu sé tilbúið frumvarp um lög á verkfallið.

Er vísað í heimildir blaðsins en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hefur sagt að það sé til skoðunar að setja lög á verkfallið.

Slík lagasetning var þó ekki til umræðu á ríkisstjórnarfundi í vikunni en eftir þann fund sagði ráðherra í samtali við fréttastofu að hún efaðist um verkfallsrétt flugvirkja Gæslunnar.

Í Morgunblaðinu í dag er einnig vísað í heimildir varðandi það að óeining sé innan ríkisstjórnarinnar um hvort leggja eigi fram frumvarp sem setji lög á verkfallið. Er fullyrt að ráðherrar Vinstri grænna hafi lýst sig andsnúna frumvarpinu.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir í samtali við blaðið að hún hafi ekkert frumvarp séð. Hún leggi áherslu á að „vegna eðlis þess­ara starfa leggi samn­ingsaðilar sig alla fram við að kom­ast að sam­komu­lagi“.

Fundað var í deilunni síðdegis í gær en án árangurs. Rætt var við Aðalstein Leifsson, ríkissáttasemjara, í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi. Hann vildi lítið gefa upp um gang viðræðna við samningaborðið en sagði allt kapp lagt á að ná samningum.

„Þetta eru mjög alvarlegar og þungar og erfiðar samningaviðræður en við vinnum þetta áfram og ég hef boðað til fundar strax aftur klukkan níu í fyrramálið til þess að við höldum áfram að vinna úr þessu og reyna að finna leiðir og lausnir,“ sagði Aðalsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×