Erlent

Helst­i kjarn­ork­u­vís­ind­a­mað­ur Írans ráð­inn af dög­um

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd af vettvangi frá Fars fréttaveitunni í Íran. Sú er talin tengjast herafla landsins.
Mynd af vettvangi frá Fars fréttaveitunni í Íran. Sú er talin tengjast herafla landsins.

Einn helsti kjarnorkuvísindamaður Írans var myrtur en Ísraelar hafa sagt hann hafa stýrt leynilegri kjarnorkuvopnaáætlun ríkisins.

Mohsen Fakhrizadeh, einn helsti kjarnorkuvísindamaður Írans og yfirmaður í her landsins, var myrtur í árás skammt frá Tehran, höfuðborg landsins, í dag. Svo virðist sem að bíl sem hann var í hafi orðið fyrir sprengjuárás og svo skothríð. Fakhrizadeh og aðrir voru í kjölfarið fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar.

Varnarmálaráðuneytið hefur staðfest að að Fakhrizadeh hafi verið myrtur og segir að um hryðjuverkaárás sé að ræða.

Fréttaveita í eigu íranska ríkisins hefur eftir vitnum að þrír eða fjórir hafi dáið í árásinni. Fars segir að fyrst hafi sprengja sprungið og svo hafi tvö teymi hryðjuverkamanna í bílum hafið skothríð á bíl Fakhrizadeh.

Lífverðir Fakhrizadeh eru sagðir vera meðal hinna látnu. Ekki er vitað hvað varð um árásarmennina.

Nánar tiltekið átti árásin sér stað í bænum Absard sem er í um 40 kílómetra fjarlægð frá Tehran. Þar eru glæsihús sem notuð eru af mörgum af æðstu embættismönnum Írans, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Heita hefndum

Byltingarverðir Írans, her landsins, hefur heitið því að hefna fyrir dauða vísindamannsins, samkvæmt Times of Israel. Spjótin munu án efa beinast að Ísrael vegna árásarinnar og er rifjað upp í frétt TOI að Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, hafi árið 2018 sagt opinberlega að Fakhrizadeh, væri yfirmaður leynilegrar kjarnorkuvopnaáætlunar Írans.

Þá sagði forsætisráðherrann að yfirvöld í Íran hefðu unnið að þróun kjarnorkuvopna í leyni í langan tíma.

Sjá einnig: Segir Írani hafa logið um kjarnorkuvopnaáætlun sína

Í grein Fars segir að íranskir kjarnorkuvísindamenn hafi áður verið skotmörk útsendara Ísrael.

Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, segir árásina bera merki Ísrael og að hún sýni fram á örvæntingu ísraela.

Hossein Dehghan, ráðgjafi Ali Khameini, leiðtoga Írans, tísti nýverið viðvörun sem virðist beinast að Ísrael og Donald Trump.

Hann sagði að nú virtist sem að síonistarnir ætluðu sér að auka þrýstingin á Íran undir lok pólitísks lífs bandamanns þeirra. Hann sagði þar að auki að Íran myndir bregðast við og falla á morðingja Fakhrizadeh eins og elding. Þeir myndu sjá eftir aðgerðum sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×