Erlent

Krefjast þess að minkarnir verði grafnir upp

Sylvía Hall skrifar
Forsætisráðherrann Mette Frederiksen ásamt minkabóndanum Peter Hindbo. Hún segir málið þungbært fyrir alla, enda hafi margir misst lífsviðurværi sitt.
Forsætisráðherrann Mette Frederiksen ásamt minkabóndanum Peter Hindbo. Hún segir málið þungbært fyrir alla, enda hafi margir misst lífsviðurværi sitt. EPA/Mads Nissen

Þingmenn stjórnarandstöðunnar í Danmörku hafa kallað eftir því að milljónir minka, sem aflífaðir voru eftir að stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar fannst í þeim, verði grafnir upp og færðir annað.

Minkamálið hefur verið umtalað undanfarin mánuð og sagði einn ráðherra ríkisstjórnarinnar af sér eftir að hafa fyrirskipað að öllum minkum yrði lógað, án þess að hafa til þess lagaheimild. Minkarnir voru grafnir á tveimur stöðum í Jótlandi, annars vegar nærri Karup og hins vegar nærri Holstebro. 

Ríkisstjórnin hefur játað mistök í málinu en samkvæmt breska ríkisútvarpinu deila þingmenn nú um hvar sé best að grafa minkana, þar sem núverandi staðsetningar eru nærri baðstað og drykkjarvatnsuppsprettu.

Frá minkabúi nærri Naestved í Danmörku.AP/Mads Claus Rasmussen

Um sautján milljón minkar voru í Danmörku þegar afbrigðið fannst og hafði veiran greinst í yfir tvö hundruð minkabúum, en minkaiðnaðurinn í Danmörku er sá stærsti innan Evrópusambandsins.

Margir loðdýrabændur misstu því lífsviðurværi sitt þegar dýrunum var lógað og var ljóst að ákvörðunin var forsætisráðherranum Mette Frederiksen þungbær. Brast hún í grát þegar fjölmiðlar leituðu viðbragða hennar eftir að minkunum var lógað.

„Ég vona að minkabændur muni að þetta var ekki þeim að kenna. Þetta er ekki vegna þess að þeir hafa verið lélegir minkabændur, þvert á móti eru þeir heimsins bestu minkabændur. Þetta er út af kórónuveirunni,“ sagði Frederiksen.


Tengdar fréttir

Segir af sér vegna minka­málsins

Mogens Jensen, ráðherra matvæla-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmála Danmerkur, hefur sagt af sér embætti vegna minkamálsins.

Írar fylgja í fótspor Dana

Landbúnaðarráðherra Írlands hefur tilkynnt eigendum minkabúa í landinu að öllum minkum verði lógað til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×