Innlent

Börnum verður ekki boðin bólusetning

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra hefur staðfest og birt reglugerð um forgangsröðun við bólusetningu vegna kórónuveirunnar. Horft var til leiðbeininga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, en sóttvarnalæknir mun hafa sveigjanleika til að gera breytingar. Börnum verður ekki boðin bólusetning.

Í reglugerðinni eru skilgreindir tíu forgangshópar og lögð verður sérstök áhersla á að bólusetja fyrst þá einstaklinga sem eru í framlínunni í baráttunn við sjúkdóminn, á borð við heilbrigðisstarfsfólk sem starfar á bráðamóttökum og gjörgæsludeildum sjúkrahúsa svo fátt eitt sé nefnt. Bólusetning einstaklinga sem dvelja á hjúkrunar- og dvalarheimilum og öldrunardeildum sjúkrahúsa verður einnig í miklum forgangi. 

Ekki er gert ráð fyrir að börnum fæddum 2006 og síðar verði boðin bólusetning nema þau hafi undirliggjandi langvinna sjúkdóma og séu í sérstökum áhættuhópi.

„Þarna eru auðvitað okkar elsta fólk, okkar viðkvæmasta fólk, heilbrigðisstarfsfólk, starfsfólk í framlínu og svo framvegis, eftir tilteknum reglum og í tiltekinni röð,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Líklegt er að notuð verði fleiri en ein tegund bóluefna hér á landi sem hendi ólíkum hópum með mismunandi hætti sem geti haft áhrif á forgangsröðun. Svandís segir að reglugerðin sé í samræmi við leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

„En um leið þá hefur sóttvarnalæknir mikinn sveigjanleika til þess að meta og endurmeta í röðina í ljósi þess hversu mikil virkni einstakra bóluefna er,“ segir Svandís.

Hvenær telur þú að bólusetningar geti hafist?

„Bjartsýnasta fólk segir að það gerist strax á fyrstu mánuðum nýs árs þannig að ég vona að það verði svo,“ segir Svandís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×