Innlent

Hólmfríður sækist eftir þingsæti Ara Trausta

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri í Sandgerðisskóla, ætlar að gefa kost á sér til að leiða lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.
Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri í Sandgerðisskóla, ætlar að gefa kost á sér til að leiða lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi í komandi Alþingiskosningum. Facebook

Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri í Sandgerðisskóla, ætlar að gefa kost á sér til að leiða lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi í komandi Alþingiskosningum. Þannig hyggst Hólmfríður sækjast eftir sæti Ara Trausta Guðmundssonar, 5. þingmanns Suðurkjördæmis, sem hefur gefið það út að hann hyggist ekki sækjast eftir að gegna áframhaldandi þingmennsku á næsta kjörtímabili.

„Ég hef verið virk í VG undanfarin ár og er formaður svæðisfélags Vinstri grænna á Suðurnesjum. Í gegnum störf mín í stjórnmálum tel ég skipta miklu máli að áherslur VG fái stóraukið vægi í því fjölbreytta, gjöfula umhverfi og náttúru sem Suðurlandið er. Þá skiptir miklu að íbúi af fjölmennasta og fjölbreyttasta svæði kjördæmisins leiði listann með jafnrétti, jöfnuð, lýðræði, sjálfbærni, fjölmenningu og réttlæti að leiðarljósi,“ segir Hólmfríður í færslu á Facebook þar sem hún greinir frá framboði sínu.

Hún er menntunarfræðingur og hyggst leggja áherslu á velferð barna og fjölskyldna. „Hér á Suðurnesjum þurfum við að leggja ríka áherslu á að efla heilbrigðisþjónustu við íbúa. Þá þarf einnig að horfa til fjölbreyttari atvinnumöguleika og samfélags þar sem vel er stutt við fjölmenningu og menntun í öllu kjördæminu með umhverfi, mannlíf og verndun náttúrunnar efst í huga,“ segir ennfremur í færslu Hólmfríðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×