Handbolti

Hefur aðeins misst af þremur leikjum í barneignarleyfinu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Karen Knútsdóttir.
Karen Knútsdóttir. vísir/vilhelm

Íslenskt handknattleiksfólk hefur ekki spilað mikinn handbolta á árinu sem senn er að líða og ein færasta handboltakona landsins missti ekki mikið úr þrátt fyrir að ganga með og fæða barn.

Karen Knútsdóttir, lykilmaður í liði Fram og íslenska landsliðinu, fór yfir síðastliðið ár með Gaupa í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Karen var barnshafandi þegar Covid skall á og eignaðist stelpu fyrir tveimur mánuðum síðan. Þrátt fyrir barneignarleyfið hefur hún misst af afar fáum leikjum með liði sínu, Fram.

„Þegar ég varð ólétt leit út fyrir að ég myndi missa af úrslitakeppninni og öllum skemmtilegustu leikjunum. En ég náði að klára bikarúrslitin en síðan var öllu slaufað og það hefur varla verið spilað síðan. Ég held að Olís-deildin sé kannski bara að bíða eftir mér,“ sagði Karen í léttum tón.

Karen ein allra besta handboltakona landsins en íslenska landsliðið hefur ekki þurft að sakna hennar í barneignarleyfinu, þar sem landsliðið hefur ekkert spilað.

„Undankeppninni hjá landsliðinu var frestað líka og vonandi verð ég komin í landsliðsform þegar leikirnir fara fram í mars. Þá mun ég ekki missa af einum landsleik vegna barneigna,“

Ansi þungt hljóð er í handknattleiksfólki landsins um þessar mundir eftir erfitt ár og segir Karen það hafa verið gott fyrir sálartetrið að bæta nýjum meðlim í fjölskylduna.

„Ég er mjög fegin að hafa nýtt þessa Covid-pásu í að hugsa um eitthvað annað og nýta tímann í að eignast barn.“

„Þetta er rosalega erfitt og voðalega þungt. Þetta er búið að vera leiðinlegt ár og þess vegna er ég fegin að hafa fengið gleðisprengju í líf mitt,“ segir Karen en innslagið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×