Körfubolti

Elvar Már leikmaður mánaðarins í Litáen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elvar Már Friðriksson hefur leikið vel á sínu fyrsta tímabili í litháísku úrvalsdeildinni.
Elvar Már Friðriksson hefur leikið vel á sínu fyrsta tímabili í litháísku úrvalsdeildinni. vísir/bára

Elvar Már Friðriksson, leikstjórnandi BC Siauliai, hefur verið valinn besti leikmaður nóvember-mánaðar í litáísku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Njarðvíkingurinn átti stóran þátt í því Siauliai vann síðustu tvo leiki sína. Liðið fór afar illa af stað í vetur og tapaði fyrstu sjö leikjum sínum í litháísku deildinni.

Elvar skoraði 21 stig og gaf tólf stoðsendingar í 93-88 sigri á Neptunas og fylgdi þeirri frammistöðu eftir með sextán stigum og sjö stoðsendingum þegar Siauliai vann Nevezis-Optibet, 87-85.

Í níu deildarleikjum á tímabilinu er Elvar með 16,4 stig, 4,0 fráköst og 7,8 stoðsendingar að meðaltali. Hann er með 53,8 prósent skotnýtingu inni í teig og 37,3 prósent nýtingu í þriggja stiga skotum.

Elvar er stoðsendingahæsti leikmaður litáísku deildarinnar og sá fjórði stigahæsti. Þá er hann annar þegar kemur að framlagsstigum með 21,6 slík að meðaltali í leik.

Elvar lék með íslenska landsliðinu í leikjum þess í forkeppni heimsmeistaramótsins 2023 í síðustu viku. Í sigrinum á Lúxemborg á fimmtudaginn, 90-76, skoraði hann þrettán stig og gaf fjórar stoðsendingar. Elvar var svo með níu stig í sigrinum á Kósóvó, 86-62, á laugardaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×