Yfirdeild Mannréttindadómstólsins staðfesti í morgun dóm dómstólsins sjálfs frá því í fyrra um að þáverandi dómsmálaráðherra hafi vissulega haft lagalega heimild til að breyta lista hæfnisnefndar um fimmtán dómara í nýjan Landsrétt. Ráðherra hafi hins vegar hundsað þau skilyrði að rannsaka umsækjendur og leggja á þá sjálfstætt mat. Þá hafi Alþingi gerst brotlegt við lagaákvæði um skipan dómaranna með því að láta ekki greiða atkvæði um hvern og einn þeirra heldur alla saman.
Sigríður segir dóminn ekki koma sér á óvart miðað við fyrri dóm og skipan dómstólsins.

„Það er auðvitað hnýtt í ráðherrann. Það er hnýtt í Alþingi og það er hnýtt í Hæstarétt Íslands því það er dómur Hæstaréttar sem er þarna undir. En niðurstaðan virðist samt sem áður í rauninni ekki gera neitt með það og það er sérstaklega áréttað að þetta kalli ekki á að íslenska ríkið þurfi að endurupptaka alla dóma sér hér hafa fallið,“ segir Sigríður.
Það væru þá dómar sem þeir fjórir dómarar hefðu dæmt sem Sigríður bætti á lista hæfisnefndar yfir hæfa dómara hafa dæmt. Hver og einn dæmdur í þeim málum þyrfi að ákveða hvort hann leggði mál sitt fyrir nýjan endurupptökudóm sem tók gildi í dag á fullveldisdaginn 1. desember. Sigríður segir ljóst eftir samtöl hennar við leiðtoga allra flokka að óbreyttur listi hefði aldrei verið samþykktur á Alþingi.

„Ég reyndar lagði að mönnum að greiða atkvæði um hvern og einn. En það var ákvörðun forsætisnefndar, ábyggilega í samstarfi við skrifstofustjórann að gera það með þessum hætti. En ég árétta að ég fellst alveg á sjónarmið þingsins að þessu leyti. Þetta er fullkomlega í samræmi við þingskapareglur,“ segir dómsmálaráðherrann fyrrverandi sem sagði af sér eftir dóm undirdeildar Mannréttindadómstólsins.
Sigríður segir það mikinn misskilning að halda því fram að þetta væri eitthvað stórkostlegt atriði. Enda hefði Hæstiréttur bent á að þetta varðaði ekki að dómarar hefðu verið ólöglega skipaðir. Tillit hafi verið tekið til margra ábendinga Mannréttindadómstólsins á undanförnum árum en ekki allra. Hæstiréttur hefði lokaorðið í öllum ágreiningi fyrir dómi á Íslandi.
„En það virðist vera svlítið erfitt að fá umræðuna eða þá sem taka þátt í þessari umræðu til að átta sig á þessu grundvallaratriði,“ segir Sigríður. Íslendingar séu bundnir af þjóðarrétti en ekki landsrétti í þessum málum.
„Það sem ég hef lesið er ótrúleg óvirðing í garð Alþingis Íslendinga sérstaklega með þessari niðurstöðu. Þá held ég að mönnum sé holt að staldra aðeins við og reyna að átta sig á tilgangi og markmiði með þessari þátttöku í dómstólnum,“ segir Sigríður Andersen.