Enska knattspyrnusambandið birti tilkynningu þess efnis í gærkvöld ásamt ensku úrvalsdeildinni og EFL (samtök félaga í neðri deildum á Englandi). Munu nýjar reglur taka gildi þegar Bretland fer endanlega úr Evrópusambandinu þann 31. desember næstkomandi.
Í nýrri reglugerð segir að ensk knattspyrnulið megi ekki kaupa leikmenn undir 18 ára en það er eitthvað sem hefur tíðkast undanfarin ár. Ensk félög hafa grætt á því að geta boðið leikmönnum undir 18 ára mun betri samninga en lið í öðrum löndum. Var það til að mynda ástæðan fyrir því að Arsenal nældi í Cesc Fabregas á sínum tíma og Manchester United landaði Gerard Pique.
Þá mega lið aðeins kaupa þrjá leikmenn undir 21 árs aldri í hverjum félagaskiptaglugga og ekki fleiri en sex á hverju tímabili fyrir sig. Er þetta ætlað til þess að ensk félög einbeiti sér að því að búa til eigin leikmenn frekar en að versla þá alltaf erlendis frá.
Nú mun sama regluverk gilda um atvinnuleyfi allra leikmanna sem keyptir verða erlendis frá. Hér áður fyrr þurftu eikmenn utan Evrópusambandsins að fá ákveðið mörg stig í stigakerfi enska sambandsins til að fá atvinnuleyfi. Voru stigin byggð á fjölda landsleikja, úr hvaða deild þeir koma, hvernig liðinu sem þeir koma frá hefur gengið og þar fram eftir götunum.
Talið er að leikmenn þurfi að fá allavega 15 stig til að eiga rétt á atvinnuleyfi. Í frétt The Guardian er þó ekki gefið upp nákvæmlega hvernig stigagjöfin verður.
Work permits for EU players and no Under-18 signings in post-Brexit regulations. Story by @ed_aarons https://t.co/sCW9BPFW51
— Guardian sport (@guardian_sport) December 1, 2020
„Enska úrvalsdeildin hefur unnið með enska knattspyrnusambandinu og komist að samkomulagi sem sér til þess að Brexit mun ekki hafa slæm áhrif á árangur ensku úrvalsdeildarinnar né möguleika enskra landsliða í framtíðinni,“ sagði Richard Masters, framkvæmdastjóri ensku úrvalsdeildarinnar, um breytingarnar.