Erlent

Sonurinn var ekki fangi móður sinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Íbúðina er að finna í Haninge, suður af Stokkhólmi.
Íbúðina er að finna í Haninge, suður af Stokkhólmi. EPA

Kona á áttræðisaldri, sem talin var hafa haldið syni sínum föngnum í íbúð sinni í Haninge suður af Stokkhólmi í nær þrjá áratugi, er ekki lengur grunuð um saknæmt athæfi. Ekki hafa fundist neinar vísbendingar um að syninum hafi verið haldið í íbúðinni gegn vilja sínum.

Þetta hafa sænskir fjölmiðlar eftir Emmu Olsson saksóknara í dag. Hún segir að rannsókn á málinu standi þó enn yfir þar sem nokkrum spurningum sé enn ósvarað. Til dæmis verði samskipti fjölskyldunnar við félagsmálayfirvöld í Haninge rannsökuð.

Systir mannsins gekk fram á hann í íbúðinni á sunnudagskvöld. Haft hefur verið eftir henni að hann hafi legið þar einn á gólfi íbúðarinnar, vannærður og tannlaus með áverka um allan líkamann. Fram kemur í frétt Aftonbladet að sár mannsins séu ekki talin af völdum ofbeldis heldur veikinda.

Þá segir Olsson að maðurinn, sem er 41 árs, hafi fullyrt við yfirheyrslu lögreglu að hann hefði getað yfirgefið íbúðina. Þau mæðginin hafi þó í áranna rás einangrast æ meira frá samfélaginu. Maðurinn virðist hafa haldið sig nær algjörlega til hlés síðustu misseri en nágranni mæðginanna lýsti því í samtali við norska dagblaðið VG í gær að hann hefði aldrei grunað að nokkur annar en konan byggi í íbúðinni.

Móðirin var handtekin fyrr í vikunni vegna gruns um frelsissviptingu og ofbeldi gegn syni sínum. Hún var yfirheyrð og í gær var tilkynnt að henni hefði verið sleppt lausri. Þá hafði hún þó enn stöðu grunaðs í málinu.


Tengdar fréttir

Grunaði aldrei að nokkur annar byggi í íbúðinni

Kona sem grunuð er um að hafa haldið syni sínum föngnum í íbúð sinni í grennd við Stokkhólm var sleppt úr haldi lögreglu eftir að sonur hennar var yfirheyrður í dag. Konan liggur þó enn undir grun í málinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×