Erlent

Á­kærður fyrir morð á finnskri ferju fyrir 33 árum

Atli Ísleifsson skrifar
Viking Sally í Stokkhólmi á níunda áratugnum.
Viking Sally í Stokkhólmi á níunda áratugnum. Wikipedia Commons/Mark Markefelt

Lögregla í Finnlandi hefur ákært danskan karlmann vegna morðs sem framið var um borð í ferjunni Viking Sally árið 1987.

YLE segir frá því að lögregla telur sig nú loks hafa leyst hið 33 ára morðmál. Var þar ráðist á tvo þýska námsmenn, karl og konu, þar sem þeir lágu sofandi um borð í ferjunni sem var á leiðinni frá Stokkhólmi í Svíþjóð til Turku í Finnlandi.

Hin særðu voru flutt með þyrlu á sjúkrahús þar sem maðurinn lést af sárum sínum.

Í Turku beið svo lögregla við bryggjuna þar sem skýrsla var tekin af öllum farþegum og starfsfólki, en aldrei tókst að hafa hendur í hári morðingjans.

Árið 2016 komst lögregla svo yfir nýjar upplýsingar í málinu og fóru grunsemdir þá að beinast að dönskum ríkisborgara sem var um borð í ferjunni þegar ráðist var á fólkið.

Hinn grunaði er fæddur árið 1969 og neitar sök. Hann gengur laus. 

Aðalmeðferð í málinu fer fram fyrir finnskum héraðsdómi í maí á næsta ári. Verði maðurinn sakfelldur verður þetta lengsti tíminn milli framins glæps og sakfellingar í finnskri réttarsögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×