Fótbolti

Get ekki setið undir slíkum á­sökunum enda eru þær fjarri sann­leikanum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hallbera Guðný tjáði sig á Facebook-síðu sinni um Jón Þór Hauksson, fráfarandi landsliðsþjálfara, í dag.
Hallbera Guðný tjáði sig á Facebook-síðu sinni um Jón Þór Hauksson, fráfarandi landsliðsþjálfara, í dag. Vísir/Vilhelm

Landsliðskonan Hallbera Guðný Gísladóttir segist ekki getað setið undir þeim ásökunum að leikmenn íslenska landsliðsins hafi á einn eða annan hátt hrakið Jón Þór Hauksson, þjálfara liðsins, úr starfi.

Hallbera Guðný hefur nú - líkt og Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði liðsins - tjáð sig varðandi umræðuna í kringum íslenska kvennalandsliðið eftir uppsögn Jóns Þórs Haukssonar.

Málið snýr að því sem gerðist eftir 1-0 sigur Íslands á Ungverjalandi ytra þar sem sæti á EM 2022 í Englandi var tryggt. Jón Þór, þjálfari liðsins, fór þar yfir strikið í samskiptum sínum við leikmenn. Hann sagði í kjölfarið starfi sínu lausu en ýmsar sögusagnir hafa verið á kreiki varðandi viðbrögð leikmanna ef Jón Þór yrði áfram þjálfara liðsins.

Sara Björk tjáði sig á Twitter-síðu sinni í gær og Hallbera Guðný gerði slíkt hið sama á Facebook-síðu sinni í dag. Þar þakkar hún Jóni Þóri fyrir samstarfið og telur hann flottan þjálfara. Hallbera segist hins vegar ekki geta setið undir þeim ásökunum að leikmenn hafi haft eitthvað með uppsögn hans að gera.

„Mig langar að byrja á því að þakka Jóni Þóri fyrir samstarfið síðastliðin tvö ár. Mín skoðun er sú að hann er flottur þjálfari með mikla ástríðu fyrir leiknum og hef ég ekkert nema góða hluti um okkar tíma í landsliðinu að segja,“ segir Hallbera í pósti sínum. Hún heldur svo áfram.

„Það hryggir mig hins vegar að sjá fólk taka undir og deila skoðunum sem snúa að því að um samantekin ráð okkar leikmanna hafi verið að ræða til þess að hrekja þjálfarann frá störfum. Ég get ekki setið undir slíkum ásökunum enda eru þær fjarri sannleikanum. Eftir situr að landsliðið náði frábærum árangri og tryggði sér sæti á EM 2022.“

„Við munum halda áfram að leggja hart að okkur svo liðið geti byggt ofan á þann árangur og þá góðu vinnu sem hefur verið unnin,“ segir Hallbera Guðný að lokum.

Mig langar að byrja á því að þakka Jóni Þóri fyrir samstarfið síðastliðin 2 ár. Mín skoðun er sú að hann er flottur...

Posted by Hallbera Guðný Gísladóttir on Thursday, December 10, 2020

Tengdar fréttir

Framkoma Jóns Þórs í fögnuði landsliðsins til skoðunar

Framkoma Jóns Þórs Haukssonar landsliðsþjálfara í fögnuði íslenska kvennalandsliðsins eftir að þær tryggðu sér sæti á EM 2022 á þriðjudaginn er til skoðunar hjá KSÍ. Hann var undir áhrifum áfengis og þótti fara yfir strikið í samtölum sínum við leikmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×