Innlent

Smitrakningarteymið stendur við tölur um smit

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ingi Páll Sigurðsson Sporthúsið
Ingi Páll Sigurðsson Sporthúsið Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Smitrakningarteymi almannavarna stendur við tölur sínar um smit í líkamsræktarstöðvum og sundlaugum sem fjölmiðlar, þar á meðal Vísir, greindu frá í fyrradag.

Frá þessu segir á vef RÚV en tilefnið er athugasemd Gests Jónssonar, lögmanns World Class, vegna fréttar RÚV um fjölda smita sem rakin hafa verið til sundlauga og líkamsræktarstöðva. Í athugasemdinni sagði Gestur að fréttin væri skrýtin og jafnvel röng.

Vísaði hann til tölfræði um fjölda smita á fyrrnefndum stöðum. Tölfræðin sem hann gerir athugasemd við er að 36 smit hafi verið rakin til líkamsræktarstöðva en einungis fimm til sundlauga.

Þær tölur eru þó fengnar frá smitrakningarteymi almannavarna og greindi Vísir frá þeim, líkt og RÚV, í fyrradag.

Þá var tölurnar einnig að finna í greinargerð Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, til heilbrigðisráðherra þar sem hann færði rök fyrir því að sundlaugar mættu opna en ekki líkamsræktarstöðvar.

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við RÚV í gærkvöldi að smitrakningarteymið stæði við tölurnar en þær nái eingöngu til þriðju bylgju.

Smit hafi verið rakin til þriggja líkamsræktarstöðva en hópsýking hjá hnefaleikafélagi í Kópavogi sem kom upp í haust er ekki inni í tölunum. Jóhann sagði að verið væri að fara yfir tölurnar en ekkert benti til þess að þær væru rangar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×