„Í dag vil ég greina frá því að Ísland er reiðubúið að ganga lengra en gert er ráð fyrir samkvæmt fyrirliggjandi markmiði um 40% samdrátt losunar fyrir 2030 og fara upp í 55% eða meira. Nýlega uppfærð aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum verður styrkt enn frekar til að endurspegla þetta markmið,“ sagði Katrín í ávarpi sínu.
Hún sagði það ekki duga að eingöngu draga úr losun heldur þurfi einnig að binda kolefni úr andrúmsloftinu. Ísland standi framarlega að vígi í þeim efnum.
„Það er lykilatriði í markmiði okkar um að ná kolefnishlutleysi fyrir 2040,“ sagði Katrín. Ísland styðji við þróun tækni sem stendur yfir til að binda kolefni með því að breyta því í basalt. Þá hafi stjórnvöld nýlega aukið áherslu á annars konar lausnir, til að mynda skógrækt og endurheimt votlendis.
„Í dag boðum við efldan ríkisstuðning við slíkar lausnir sem ætti að skila sér í aukinni kolefnisbindingu,“ sagði Katrín. „Ísland mun auka fjárhagslegar skuldbindingar sínar vegna þróunarsamvinnu í loftslagsmálum með því að auka framlög til loftslagsverkefna um tæpan helming, eða um 45%,“ sagði Katrín.
Auknar grænar áherslur og metnaður í loftslagsmálum muni skipta sköpum í viðspyrnunni sem ráðast þurfi í í kjölfar kórónuveirufaraldurinn.
„Ísland vill sýna gott fordæmi með því að flýta fyrir hreinni framtíð með nýsköpun, metnaði og vönduðum vinnubrögðum,“ sagði Katrín.