Það vakti nokkra athygli þegar fjöldi fólks safnaðist saman þegar tónlistarmaðurinn Auður tróð upp um helgina en ljóst var á myndum að ekki voru allir með grímu og tveggja metra reglan ekki virt.
Greint var frá því á Facebook-síðu Priksins í dag að á fimmtudaginn kemur tónlistarkonan Bríet fram en þá er einnig fyrirhuguð sýning á heimildarmynd um Helga Gestsson, einn fastakúnna staðarins.
„Þegar hæst stóð, á 25 mínútum, þá myndaðist hópur á þessum gatnamótum þannig að á næstu tónleikum verðum við með fólk sem verður í því að framfylgja reglum og dreifa grímum og minna fólk á að passa sig,“ segir Geoffrey Þór Huntingdon-Williams, rekstrarstjóri Priksins og einn eigenda.
Hann segist hafa átt í góðum samskiptum við lögreglu og það verði áfram.
Auk þess að vera með eftirlit á staðnum verði svæðið beint fyrir framan gluggana hólfað niður.
Geoffrey vill ekki gefa mikið upp um það sem er á döfinni, enda dagskráin hugsuð sem nokkurs konar jóladagatal en segir hana einnig þróast í takt við sóttvarnareglur.
„Við hvetjum alla til að hafa gaman en líka fara varlega,“ segir hann. „Og gleðileg jól!“