Fótbolti

Hverjum geta ensku liðin mætt í Meistaradeildinni?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool og Atlético Madrid gætu mæst í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað tímabilið í röð.
Liverpool og Atlético Madrid gætu mæst í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað tímabilið í röð. getty/Visionhaus

Þrjú ensk lið verða í pottinum þegar dregið verður í sextán liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í dag.

Drátturinn fer fram í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Evrópu í Nyon í Sviss og hefst klukkan 11:00. Sýnt verður beint frá honum á Stöð 2 Sport og á Vísi.

Liðunum sextán sem komust áfram úr riðlakeppninni er skipt í tvo hópa. Sigurvegarar riðlanna eru í efri styrkleikaflokki og liðin sem enduðu í 2. sæti riðlanna í neðri styrkleikaflokki.

Öll þrjú ensku liðin sem komust áfram í sextán liða úrslitin, Liverpool, Chelsea og Manchester City, unnu sína riðla og eru því í efri styrkleikaflokki.

Lið frá sama landi geta ekki dregist saman í sextán liða úrslitunum og þá geta lið sem voru saman í riðli ekki lent saman.

Styrkleikaflokkarnir í sextán liða úrslitunum

Efri styrkleikaflokkur

  • Bayern München
  • Real Madrid
  • Man. City
  • Liverpool
  • Chelsea
  • Dortmund
  • Juventus
  • PSG

Neðri styrkleikaflokkur

  • Atlético Madrid
  • Borussia Mönchengladbach
  • Porto
  • Atalanta
  • Sevilla
  • Lazio
  • Barcelona
  • RB Leipzig

Liverpool, Chelsea og City vonast væntanlega eftir því að sleppa við spænsku liðin Barcelona og Atlético Madrid þegar dregið verður í sextán liða úrslitin á eftir. Atlético Madrid sló Liverpool út úr sextán liða úrslitunum á síðasta tímabili.

Porto er væntanlega óskamótherji Liverpool og Chelsea en portúgalska liðið virðist það veikasta úr neðri styrkleikaflokknum. City getur ekki mætt Porto þar sem liðin voru saman í riðli.

Hverjum geta ensku liðin mætt?

Liverpool: Porto, Sevilla, Barcelona, Lazio, RB Leipzig, Gladbach og Atlético Madrid

City: Sevilla, Barcelona, Lazio, RB Leipzig, Atalanta, Gladbach og Atlético Madrid

Chelsea: Porto, Barcelona, Lazio, RB Leipzig, Atalanta, Gladbach og Atlético Madrid

Evrópumeistarar Bayern München gætu mætt Barcelona í sextán liða úrslitunum. Liðin áttust við í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili þar sem Bæjarar unnu frægan 8-2 sigur á Börsungum.

Liðin í efri styrkleikaflokki eiga seinni leikinn á heimavelli. Fyrri leikirnir í sextán liða úrslitunum fara fram 16. og 17. febrúar 2021 og seinni leikirnir 9. og 10. mars 2021.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×