Þá eiga svipaðar vísbendingar við þau sem hafa verið í sóttkví eða eiga ættingja sem hafa greinst með Covid-19.
Fjallað er um þessar fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar á vef Háskóla Íslands í dag og þá verður Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og sem fer fyrir rannsóknarhópnum, gestur á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.
Markmið rannsóknarinnar er að afla víðtækrar þekkingar á áhrifum kórónuveirufaraldursins á líðan og lífsgæði landsmanna. Alls skráðu 23 þúsund manns sig til þátttöku í rannsókninni í vor og sumar, þar af um 400 einstaklingar sem greinst hafa með COVID-19.
Síðna þá hafa vísindamennirnir unnið að því að greina gögnin og þá sérstaklega beint sjónum sínum að mögulegum áhættuhópum.
Frumniðurstöðurnar benda til þess að einstaklingar sem hafa beinlínis komist í snertingu við faraldurinn sýni merki um neikvæð áhrif á geðheilsu.
„Þær sýna að einstaklingar sem hafa greinst með COVID-19 eru eftir veikindi sín í aukinni áhættu á að sýna einkenni þunglyndis og áfallastreitu, sérstaklega þau sem urðu verulega veik af sjúkdómnum. Þá eru vísbendingar um neikvæð andleg einkenni meðal einstaklinga sem hafa verið í sóttkví eða eiga ættingja sem hafa greinst með COVID-19,“ segir Unnur Anna á vef HÍ.
Hún segir að enn sem komið er séu ekki sterkar vísbendingar um víðtæk slæm áhrif á geðheilbrigði þjóðarinnar vegna faraldursins og/eða sóttvarnaaðgerða yfirvalda. Hins vegar séu dæmi um slíkt erlendis frá þar sem faraldurinn hafi farið úr böndunum.
„Við höfum hingað til komist hjá því að missa alveg tök á faraldrinum og neikvæð áhrif á geðheilbrigði virðast því fyrst og fremst koma fram í áhættuhópum, til dæmis meðal þeirra sem verið hafa útsett fyrir smiti innan fjölskyldunnar. Þá eru einnig merki um að einstaklingar sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi í faraldrinum séu í aukinni hættu á vanlíðan,“ segir Unnur.
Nánar má lesa um málið á vef Háskóla Íslands.