Fótbolti

KSÍ styrkir fé­lögin í landinu um 70 milljónir: ÍBV og Þróttur R. fá mest saman­lagt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Íslandsmeistaralið Vals og Breiðabliks voru meðal þeirra liða sem fengu hvað mest frá Covid-framlags styrk KSÍ. 
Íslandsmeistaralið Vals og Breiðabliks voru meðal þeirra liða sem fengu hvað mest frá Covid-framlags styrk KSÍ.  Visir/Daniel Thor

Knattspyrnusamband Íslands gaf það út í dag að sambandið myndi styrkja aðildarfélög landsins um 70 milljónir króna. Var þetta samþykkt á stjórnarfundi KSÍ þann 10. desember síðastliðinn.

„Um er að ræða sérstakt 60 milljóna króna Covid-framlag og 10 milljóna króna aukaúthlutun í barna- og unglingastyrk,“ segir í tilkynningu KSÍ.

Ef styrkirnir eru lagðir saman fá ÍBV og Þróttur Reykjavík mestan pening eða tæplega 2.9 milljónir íslenskra króna. A

f þeim liðum sem eiga lið í bæði Pepsi Max deild karla og kvenna fá Breiðablik, FH, KR, Stjarnan, Fylkir og Valur mest eða 2.75 milljónir króna. Þar á eftir koma Fjölnir, ÍA, Víkingur R., Þróttur R. og ÍBV með 2.475 milljónir. HK og Selfoss fá 2.2 milljónir og KA rétt yfir tvær milljónir í sinn hlut. Þá fær Þór Akureyri tæplega 1.8 milljón króna í styrk. 

Ekkert af ofantöldum liðum fær styrk úr 10 milljón króna aukaúthlutun í barna- og unglingastyrk.

Í Lengjudeild karla og kvenna er upphæðin öllu lægri. Af tólf liðum fá öll nema fjögur yfir milljón króna í Covid-framlag styrk. Það eru Víkingur Ó., Leiknir R., Magni Grenivík og Vestri yfir milljón króna. Öll liðin fá þó yfir milljón ef styrkirnir eru lagðir saman.

„Skipting úthlutunar KSÍ er framkvæmd á grundvelli reiknilíkans sem notast var við fyrir útgreiðslu sérstaks EM-framlags 2016, HM-framlags 2018 og fyrra framlags KSÍ til félaganna vegna tekjutaps tengt Covid-19 með lítilsháttar lagfæringu.“

„Í því líkani er félögum skipt upp í tvo flokka. Annars vegar félög með barna- og unglingastarf og hins vegar félög án þess. Eingöngu félög með virkt barna- og unglingastarf hljóta framlag frá KSÍ,“ segir í tilkynningu sambandsins.

Alls fá 46 félög styrk. Lægstan styrk fá fjögur lið í 4. deild karla sem eru með barna og unglingastarf. Um er að ræða 150 þúsund krónur í Covid-framlag og svo mismunandi upphæðir úr 10 milljón króna aukaúthlutun í barna og unglingastyrk.

Það eru KFR, Snæfell, Skallagrímur og Kormákur/Hvöt.

Hér má sjá fundargerðina í heild sinni, ásamt upphæðum og skiptingu milli félaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×