Skoðun

Stór sigur í jafn­réttis­málum

Ólafur Þór Gunnarsson skrifar

Undanfarnar vikur hefur frumvarp félagsmálaráðherra um fæðingar og foreldraorlof verið til umræðu í þinginu og samfélaginu öllu. Það hefur verið fróðlegt og gott nesti inn í umræðuna á þinginu, sérstaklega þegar um er að ræða svo mikilvægt mál. Þar hafa verið uppi ólík sjónarmið um skiptingu mánaða.

Alþingi hefur nú samþykkt lögin. Rétturinn til 12 mánaða orlofs er tryggður. Réttur beggja foreldra til 6 mánaða orlofs er tryggður. Heimilt verður að framselja 6 vikur til hins foreldrisins í stað mánaðar eins og var lagt upp með í frumvarpinu. Réttur fæðandi foreldra sem búa fjarri fæðingarstað er umtalsvert bættur. Réttur einstæðra og einstakra foreldra er einnig bættur. Þá er bætt við bráðabirgðaákvæði um endurskoðun á skiptingunni eftir tvö ár, þar sem litið verði sérstaklega til þess hvort öllum börnum hafi verið tryggður 12 mánaða réttur og hvort foreldrar nýti rétt sinn til jafns.

Þetta er risastórt framfaraskref, en það er ekki fullur sigur unninn. Enn eru eftir verkefni til að bæta réttindi foreldra og barna. Lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi eru til að mynda enn of lágar. Næsta skref ætti að vera að tryggja að lægstu greiðslur séu ekki lægri en lágmarkslaun, en í dag eru þær 80% af launum upp að 750.000, en lækka að hlutfalli eftir það. Þá er enn eftir að brúa umönnunarbilið, en það verður að vera samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Að lokinni endurskoðuninni eftir tvö ár þarf svo að meta hvort þarf að hækka þakið, hækka gólfið eða breyta skiptingunni með einhverjum hætti. Væntingar mínar eru að foreldrar nýti rétt sinn sem jafnast .

Markmiðið með því orlofskerfi sem er á Íslandi er jú að tryggja jafnan rétt foreldra til orlofs og tryggja barni samvistir með foreldrum sínum í 12 mánuði. Það er gríðarstórt jafnréttismál að foreldrar nýti þennan rétt til jafns og verði frumvarpið svona að lögum eru stigin stór skref í jafnréttisátt þar sem framseljanlegur réttur verður sex vikur en var lengst af þrír mánuðir. Lengri tími er því eyrnamerktur hvoru foreldri fyrir sig. Niðurstaðan í málinu er góð lending fyrir jafnrétti á Íslandi og barnafjölskyldur.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×