Fótbolti

Guðni ræddi bæði við þjálfara Vals og KR sem og þrjá erlenda þjálfara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðni Bergsson talaði við marga aðila í þjálfaraleit sinni.
Guðni Bergsson talaði við marga aðila í þjálfaraleit sinni. Getty/Shaun Botterill

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sagði aðeins frá leitinni að nýjum landsliðsþjálfara á blaðamannafundi í dag.

Guðni Bergsson vildi ekki segja frá því við hvaða erlenda þjálfara hann ræddi í þjálfaraleit sinni af því að hann vildi ekki brjóta trúnað við þá.

Guðni var tilbúinn að fara yfir þá íslensku þjálfara sem hann kallaði á sinn fund í aðdraganda ráðningu nýs þjálfara.

Guðni ræddi við Frey Alexandersson, fyrrum aðstoðarþjálfara, og þeir áttu góða fundi saman samkvæmt Guðna. Guðni talaði líka við Rúnar Kristinsson, þjálfara KR og áttu þeir fínan fund. Guðni ræddi einnig við Heimir Guðjónsson, þjálfara Íslandsmeistara Vals.

Guðni sagðist hafa rætt við þá alla um stöðu landsliðsins og þeirra sýn á hlutina.

Guðni segir að á endanum hafi verið niðurstaðan að semja við þá Arnar Þór Viðarsson og Eið Smára Guðjohnsen.

Guðni vildi ekki nafngreina þá erlendu þjálfara sem komu til greina. Hann var þó tilbúinn að segja að hann hafi rætt við erlenda þjálfara en auk þess voru fleiri skoðaðir. Guðni vildi eins og áður sagði ekki gefa upp nöfn þeirra.

„Ég vil halda við þá trúnað og þyrfti að fá leyfi frá þeim sjálfum að gefa upp þeirra nöfn,“ sagði Guðni Bergsson.

Guðni sagði líka aðeins frá viðræðum sínum við Lars Lagerbäck en þar kom strax í ljós að Svíinn var ekki tilbúinn að taka við þjálfun liðsins. Það er aftur á móti enn möguleiki á því að hann komi að einhverjum hætti að þjálfarateymi liðsins.


Tengdar fréttir

Hver er Arnar Þór Viðarsson?

Arnar Þór Viðarsson hefur verið ráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta til næstu tveggja ára. En hver er Arnar Þór Viðarsson?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×