Totten­ham í undan­úr­slit þrátt fyrir vand­ræði gegn Stoke

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Tottenham fagna marki Harry Kane.
Leikmenn Tottenham fagna marki Harry Kane. EPA-EFE/TIM KEETON

Tottenham Hotspur er komið í undanúrslit enska deildabikarsins eftir 3-1 sigur á B-deildarliði Stoke City. Tottenham skoraði tvívegis á síðustu 20 mínútum leiksins.

Að segja að Tottenham hafi lent í vandræðum eru ef til vill full miklar ýkjur en José Mourinho, þjálfari Spurs, var eflaust að vonast eftir að geta tekið sínar skærustu stjörnur út af snemma í síðari hálfleik til að gefa þeim verðskuldaða hvíld.

Það gekk ekki eftir í kvöld.

Tottenham hafði algjör yfirburði í fyrri hálfleik og komst yfir með marki Gareth Bale eftir sendingu Harry Winks á 22. mínútu leiksins. Var það eina mark fyrri hálfleiksins en Stoke átti ekki skot á markið fyrstu 45 mínútur leiksins.

Það kom því verulega á óvart þegar Jordan Thompson jafnaði metin á 53. mínútu. Staðan allt í einu orðin 1-1 og stóra spurningin því, getur Tottenham staðið sig í stykkinu á köldu miðvikudagskvöldi í Stoke?

Þeir gátu það á endanum en Ben Davies kom Tottenham óvænt yfir þegar tuttugu mínútur voru eftir. Vinstri bakvörðurinn ekki beint þekktur fyrir sín þrumuskot en hann nýtti svo sannarlega tækifærið í kvöld.

Það var svo að sjálfsögðu Harry Kane sem skoraði þriðja og síðasta mark leiksins undir lok leiks. Tottenham því komið í undanúrslit deildabikarsins ásamt Brentford og Manchester City.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira