Innlent

Þrír greindust með kórónu­veiruna í gær

Atli Ísleifsson skrifar
Alls hafa um 5.700 manns greinst með kórónuveiruna hér á landi frá upphafi faraldursins.
Alls hafa um 5.700 manns greinst með kórónuveiruna hér á landi frá upphafi faraldursins. Vísir/Vilhelm

Þrír greindust með kórónu­veiruna í gær. Tveir voru í sóttkví við greiningu, en einn ekki.

Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á síðunni covid.is. Síðan hefur ekki verið uppfærð síðustu daga vegna hátíðardaga og sendi embætti landlæknis þess í stað út tilkynningar.

Alls eru 25 nú á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og þar af einn á gjörgæslu. Fyrir tæpri viku voru 24 á sjúkrahúsi og þar af einn á gjörgæslu.

Tveir greindust smitaðir á landamærum í gær, báðir með virkt smit eftir fyrri landamæraskimun.

143 manns eru nú í einangrun og eru 239 í sóttkví. Þann 22. desember voru 149 í einangrun og 572 í sóttkví.

Af þeim þremur sem greindust í gær greindust allir eftir svokallaða einkennasýnatöku.

Nýgengi innanlandssmita, þ.e. fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú 27,8, en var 29,7 þann 22. desember. Þá er nýgengi landamærasmita nú 17,5, en var 15,5 þann 22. desember.

Alls hafa 5.726 manns greinst með kórónuveiruna hér á landi frá því faraldurinn hófst í lok febrúar. Þá hafa 28 dauðsföll verið rakin til Covid-19 á Íslandi frá upphafi faraldursins.

Alls voru tekin 514 einkennasýni hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og Íslenskri erfðagreiningu í gær og 473 sýni á landamærunum eða í seinni landamæraskimun. Þá voru tekin 25 sýni í svokallaðri sóttkvíar- og handahófsskimun

Fréttin hefur verið uppfærð.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×