Innlent

Afhentu undirskriftalista vegna transteymis BUGL

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Trans Vinir, Trans Ísland og Samtökin 78 afhentu áðan heilbrigðisráðherra, forstjóra Landsspítalans og landlækni undirskriftalista vegna trans teymisins á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans.
Trans Vinir, Trans Ísland og Samtökin 78 afhentu áðan heilbrigðisráðherra, forstjóra Landsspítalans og landlækni undirskriftalista vegna trans teymisins á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Vísir/Nadine

Trans Vinir, Trans Ísland og Samtökin 78 afhentu áðan heilbrigðisráðherra, forstjóra Landsspítalans og landlækni undirskriftalista vegna trans teymisins á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Þrátt fyrir að fjöldi trans barna sem leita til BUGL,  hafi fimmfaldast á síðustu tíu árum var ákveðið að leggja niður transteymið og  þjónustan verður nú í boði á göngudeild.

Málefni trans barna hafa verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur og heimildaþátturinn Trans börn sem sýndur var á Stöð 2, vakti mikla athygli. Þjónusta við trans börn og unglinga var skyndilega í miklu uppnámi í kjölfar breytingarinnar.

Ugla Stefanía Kristjánsdóttir formaður Trans Íslands, félags trans fólks á Íslandi, sagði þetta vera þvert á nýlega samþykkt lög um kynrænt sjálfræði 80/2019. Samtökin ‘78, Trans Ísland og Trans Vinir settu því af stað undirskriftalista til að þrýsta á stjórnvöld að bregðast tafarlaust við þessu ástandi. Undirskriftarlistinn var afhentur í dag.

Í janúar var send tilkynning um trans teymi BUGL til forráðamanna 48 trans barna sem fá aðstoð teymisins. Meira en 100 trans börn eru einnig á biðlista eftir því að komast að. Ástæðan fyrir því að teymið var lagt niður var skortur á fjármagni og starfsfólki. Samkvæmt tilkynningu sem send var út þann 11. febrúar síðastliðinn vinnur Landspítalinn að umbótum transteymi barna- og unglingagerðdeildar spítalans í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið.

Ráðgjafi hjá Samtökunum 78 sagði á dögunum í samtali við fréttastofu að trans börn verði oft kvíðnari eftir viðtöl í heilbrigðiskerfinu vegna þekkingarleysis heilbrigðisstarfsfólks. Það verði að setja peninga í málaflokkinn svo hægt sé að reka sérstakt transteymi á BUGL. Þjónustan sé gríðarlega mikilvæg fyrir börnin.


Tengdar fréttir

Þekkingarleysi í heilbrigðiskerfinu kemur niður á trans börnum

Ráðgjafi hjá Samtökunum 78 segir að trans börn verði oft kvíðnari eftir viðtöl í heilbrigðiskerfinu vegna þekkingarleysis heilbrigðisstarfsfólks. Það verði að setja peninga í málaflokkinn svo hægt sé að reka sérstakt transteymi á BUGL. Þjónustan sé gríðarlega mikilvæg fyrir börnin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×