Síðustu daga hefur þeim sem greinst hafa með kórónuveiruna á Íslandi fjölgað hratt en nú hafa tvö hundruð og fimmtíu greinst. „Það er komið smit í eiginlega sex landshluta getum við sagt og sóttkví er í öllum landshlutum og það er um tvö þúsund og fjögur hundruð einstaklingar í sóttkví. Þannig að það er greinilegt að sjúkdómurinn er í samfélaginu þó hann virðist ekki vera orðinn mjög útbreiddur en það á ekki að koma á óvart og við búumst við því að sjá aðeins meiri útbreiðslu á næstunn,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Þórólfur segist viss um að þær aðgerðir sem gripið hafi verið til séu að virka þar á meðal að setja fólk í sóttkví. „Einstaklingar sem eru að greinast, tæplega helmingur þeirra, þeir eru þegar í sóttkví þegar þeir eru að greinast. Sem að segir það að þessar aðgerðir okkar, við höfum náð að stoppa fólk af sem að á eftir að sýkjast og þannig að koma í veg fyrir víðtækt smit,“ segir Þórólfur.