Erlent

Hosni Mubarak látinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hosni Mubarak varði sex árum í haldi lögreglu undir lok ævi sinnar.
Hosni Mubarak varði sex árum í haldi lögreglu undir lok ævi sinnar. VÍSIR/AFP

Hosni Mubarak, fyrrverandi forseti Egyptalands, er látinn. Hann lést á sjúkrahúsi í Kaíró, 91 árs að aldri. Ýmsum sögum hafði farið af heilsufari hans; hann hefur verið sagður hafa fengið hjartaáfall, heilablóðfall og verið í dái um tíma, auk þess sem hann var fluttur á sjúkrahús árið 2013, en þá sætti hann stofufangelsi.

Mubarak varð forseti Egyptalands árið 1981 eftir morðið á forsetanum Anwar Sadat. Hann var hrakinn frá völdum í ársbyrjun 2011, þegar Arabíska vorið stóð sem hæst. Fjölmenn mótmælendahreyfing krafðist afsagnar forsetans en mætti mikilli hörku öryggisveita. Mubarak var dæmdur sekur á neðra dómstigi um að hafa fyrirskipað skotárásir á mótmælendur en talið er að þúsundir hafi látið lífið í átökum lögreglu og mótmælenda.

Hann var að endingu sýknaður af þessum ákærum í Hæstarétti Egyptalands en Mubarak varði alls sex árum í haldi lögreglu. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir að hafa dregið að sér fé úr opinberum sjóðum. Synir hans tveir fengu einnig dóma í sama máli en saksóknarar fullyrtu að feðgarnir hafi dregið sér tæpar átján milljónir dollara sem nota átti að nota til viðhalds á forsetahöllum landsins.

Mubarak lætur eftir sig eiginkonu sína Suzanne og fyrrnefnda syni, þá Gamal og Alaa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×