Velferðarnefnd bíður eftir útreikningum frá stjórnvöldum varðandi frumvarp um atvinnuleysisbætur til þeirra sem fara í hlutastörf vegna samdráttar í atvinnulífinu í tengslum við útbreiðslu Covid-19 veirunnar.
Eins og frumvarpið lítur út núna gæti fólk sem verður fyrir lækkun starfshlutfalls vegna minnkandi umsvifa fyrirtækja á næstu þremur mánuðum fengið atvinnuleysisbætur til að vega upp á móti. Frumvarpið var lagt fram á föstudag í síðustu viku og Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra mælti fyrir því á þriðjudag. Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar segir nefndarfólk hafa byrjað að rýna frumvarpið strax á föstudag.
„Og höfum svo verið að taka á móti gestum frá því eldsnemma á mánudagsmorgun.“
Þið funduðuð aðeins í gær og nú er hlé, eftir hverju er beðið núna?
„Við erum aðallega að bíða eftir frekari útreikningum frá ráðuneytinu. Mögulegum breytingum eða tillögum að breytingum frá ríkisstjórninni,“ segir formaður velferðarnefndar. Nefndin sjálf hafi hugmyndir að breytingum en vilji bíða eftir breytingartillögum frá stjórnvöldum.
Eins og frumvarpið var lagt fram getur fólk sem verður að minnsta kosti fyrir tuttugu prósenta skerðingu launa og fer allt niður í 50 prósenta starfshlutfall fengið það jafnað út upp að 80 prósentum launa sinna í þrjá mánuði, þó aldrei meira en 650 þúsund krónur samanlagt í laun og bætur á mánuði. Samkvæmt heimildum fréttastofu er verið að endurskoða öll þessi hlutföll og kostnaðarmeta en kostnaðurinn gæti verið mjög umtalsverður.
Þingfundi sem átti að vera í dag var frestað til morguns til að gefa meiri tíma til útreikninga en Helga Vala vonar að hægt verði að afgreiða frumvarpið úr nefnd á morgun.
„Já við vonum það en auðvitað skiptir máli að gera svona hluti vel. Þannig að það þurfi ekki að fara að laga það til strax daginn eftir að það er orðið að lögum. Og ég held að þótt það kosti einhverja klukkutíma sé til mikils að vinna. Að gera þetta almennilega,“ segir Helga Vala.
Þá hangi þetta mál eðlilega saman með öðrum aðgerðum upp á tugi milljarða sem stjórnvöld hafi boðað.
„Auðvitað, allt fjármagn er að koma úr þessum sama sjóði, úr þessum sama potti. Þess vegna er líka verið að skoða alla útreikninga í ljósi þess,“ segir Helga Vala Helgadóttir.