Innlent

Miklar líkur á að ferðamaðurinn hafi látist af völdum COVID-19

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Alma Möller, landlæknir, á upplýsingafundinum í dag.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Alma Möller, landlæknir, á upplýsingafundinum í dag. Vísir/Vilhelm

Miklar líkur eru taldar á því að ástralski ferðamaðurinn sem lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík á mánudag hafi látist af völdum sjúkdómsins COVID-19. Þetta sagði Alma D. Möller, landlæknir, á upplýsingafundi nú rétt í þessu.

Alma sagði að krufning hefði farið fram í gærkvöldi. Endanleg skýrsla liggi ekki fyrir þar sem það tekur lengri tíma að staðfesta dánarorsök en henni væri þó heimilt, í samráði við aðstandendur mannsins og þá sem framkvæmdu krufninguna, að segja frá því að í ljós hafi komið lungnabólga.

„Þannig að það eru miklar líkur á því að maðurinn hafi látist úr COVID-19,“ sagði Alma en bætti við að hann hefði ekki verið með dæmigerð einkenni sjúkdómsins.

Maðurinn, sem var um fertugt og frá Ástralíu, var á ferðalagi hér á landi ásamt eiginkonu sinni. Hann kom á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík á mánudag og var þá alvarlega veikur. Hann lést skömmu eftir komuna á sjúkrahús.

Maðurinn reyndist smitaður af kórónuveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum en var, eins og áður segir, ekki með dæmigerð einkenni sjúkdómsins. Ekki hefur komið fram hvaða einkenni maðurinn var með.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×