Maðurinn sem grunaður er um aðild að brunanum á skemmtistaðnum Pablo Discobar er sá sami og stal steypubíl fyrr í mánuðinum og ók honum glæfralega eftir Sæbrautinni í Reykjavík, svo lögregla veitti honum eftirför. Þetta herma heimildir fréttastofu.
Tilkynning um eld á efstu hæð Pablo Discobars, sem stendur við Ingólfstorg í miðbæ Reykjavíkur, barst rétt eftir klukkan ellefu í gærkvöldi. Allt tiltækt slökkvilið var kallað út og rjúfa þurfti þak hússins. Einn maður var handtekinn á vettvangi.
Hér að neðan má sjá umfjöllun fréttamanns og svipmyndir frá aðgerðum slökkviliðs á vettvangi í nótt.
Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við Vísi í morgun að maðurinn sem handtekinn var sé grunaður um aðild að brunanum. Ekki er enn vitað um eldsupptök en tæknideild lögreglu hefur verið við rannsókn á vettvangi í dag.
Farið verður yfir ýmis gögn, m.a. upptökur úr öryggismyndavélum við staðinn. Þá stóð til að taka skýrslu af manninum nú síðdegis.
Að neðan má sjá myndband af vettvangi í nótt þar sem karlmaður er á leiðinni niður stiga bakdyramegin á Pablo Discobar. Fólk heyrist öskra á manninn.
Talsvert tjón varð á húsnæði Pablo Discobars vegna brunans, að sögn Guðmundar Páls. Vísir hefur ekki náð í eigendur staðarins í dag.
Eftirför eftir Sæbraut lauk við Kleppsveg
Það var á miðvikudag í síðustu viku sem fjölmiðlar voru undirlagðir fréttum af steypubílsstuldinum. Þá um morguninn stal maðurinn steypubíl fullum af steypu á byggingasvæði við Vitastíg.
Því næst ók maðurinn niður Laugaveg, Bankastræti og Lækjargötu og næst sem leið lá eftir Sæbrautinni. Fjölmennt lögreglulið veitti manninum eftirför og áttu gangandi vegfarendur fótum sínum fjör að launa. För mannsins var loks stöðvuð við Kleppsveg, hann stökk þá út úr bílnum og lögreglumenn eltu hann uppi og handtóku hann. Honum var sleppt samdægurs að lokinni yfirheyrslu.
Fjölmörg myndbönd náðust af atvikinu og eftirför lögreglu. Hér að neðan má sjá eitt slíkt, þar sem sjónarvottur fylgir lögreglu eftir nær endilangri Sæbrautinni.