Lífið

Biður almenning um sýna fólki í áhættuhópum virðingu

Sylvía Hall skrifar
Sarah Hyland fer með hlutverk Haley Dunphy í Modern Family.
Sarah Hyland fer með hlutverk Haley Dunphy í Modern Family. Vísir/Getty

Leikkonan Sarah Hyland, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt í þáttunum Modern Family, segist vera mjög meðvituð um hreinlæti vegna kórónuveirufaraldursins sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Hyland er sjálf í áhættuhópi og biður fólk um að virða það að sumir eru viðkvæmari en aðrir fyrir veirunni.

„Segjum að einhver fái sólarhringspest, þá fæ ég það í viku eða lengur. Það er mjög hættulegt fyrir mig,” sagði Hyland í hlaðvarpinu Brad Behavior.

Sjá einnig:  Sarah Hyland opnar sig um veikindin og sjálfsvígshugsanir

Hún segist vera mjög kvíðin vegna ástandsins sem bæti gráu ofan á svart, þar sem hún sé með heilsukvilla sem geti versnað ef hún er undir miklu álagi. Hún reyni því eftir bestu getu að halda ró sinni.

„Mitt leikplan núna er að halda mig heima. ”

Vegna undirliggjandi sjúkdóma þarf Hyland reglulega að fara út úr húsi til þess að hitta lækni. Þá passi hún alltaf að vera með hanska og andlitsgrímu. Það valdi henni þó vonbrigðum að sjá annað fólk taka ástandinu af léttúð.

„Það sem mér finnst mest pirrandi núna er ungt, heilbrigt fólk sem er að hamstra í matvörubúðum og apótekum,” segir hún og bætir við að það bitni mest á eldra fólki sem sé kannski ekki í þeirri aðstöðu að komast í verslun hvenær sem er.

Þá hvetur hún fólk til þess að hjálpa þeim sem standa höllum fæti ef það hefur möguleika á því.

„Ég held að þetta sé mikilvægur tími til þess að tileinka okkur samkennd, ást og örlæti. Lærum eitthvað af þessu. Við erum að horfa fram á það að fólk gæti dáið og ég held að þetta sé tíminn til þess að standa saman. ”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.