Erlent

Inn­lit inn í þunga­miðju far­aldursins á ítölsku sjúkra­húsi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sjúklingar með Covid-19-sjúkdóminn á Papa Giovanni XII-sjúkrahúsinu í Bergamo. Í umfjöllun Sky segir að plasthylkin utan um höfuð sjúklinganna séu notuð til að jafna loftþrýsting í lungum þeirra.
Sjúklingar með Covid-19-sjúkdóminn á Papa Giovanni XII-sjúkrahúsinu í Bergamo. Í umfjöllun Sky segir að plasthylkin utan um höfuð sjúklinganna séu notuð til að jafna loftþrýsting í lungum þeirra. Skjáskot/YouTube

Skelfingarástand ríkir á sjúkrahúsi í ítölsku borginni Bergamo í Langbarðalandi á Norður-Ítalíu, sem farið hefur hvað verst út úr kórónuveirufaraldrinum á landsvísu. Fréttamaður Sky-fréttastofunnar varpar ljósi á ástandið með myndum og ítarlegri umfjöllun sem birt var í gær og í dag.

„Starfsmenn bægja okkur frá í óðagoti, á meðan þeir ýta á undan sér körlum og konum á sjúkrabörum í færanlegum öndunarvélum. […] Þeir hlaupa fram hjá deildum sem þegar eru yfirfullar af rúmum, öll skipuð fólki í hræðilegri neyð – sem nær ekki andanum, sem heldur um brjóst sér og í slöngur sem dæla súrefni í súrefnissvelt lungu þeirra,“ skrifar Stuart Ramsay, fréttamaður Sky, sem fékk að heimsækja Papa Giovanni XXII-sjúkrahúsið í Bergamo.

Sjá einnig: Ítalía fer fram úr Kína í dauðsföllum

Í umfjölluninni segir að ástandið sé verst á nákvæmlega þessum spítala á Ítalíu. „Þetta er hreinlega skelfilegt,“ skrifar Ramsay, og lýsir því að hingað til hafi fréttamönnum ekki verið hleypt inn á sjúkrahúsið. 

Hann segir gjörgæsluna löngu sprungna og að hver einasti krókur og kimi spítalans, þar með taldir gangar og biðstofur, sé nýttur undir Covid-19-sjúklinga. Það sem virðist vera gjörgæsla sé í raun bráðamóttaka; fólkið sem lagt er inn er þegar mjög alvarlega veikt.

Myndband sem fylgir umfjölluninni sýnir vel hversu erfitt ástandið er. Starfsfólk hleypur á milli sjúklinga, sem flestir hafa nokkurs konar plasthylki utan um höfuðið til að jafna loftþrýsting í lungunum, og læknar sem rætt er við segjast aldrei hafa upplifað annað eins. 

Myndbandið má sjá í spilaranum hér að neðan. Umfjöllun Sky í heild má nálgast hér.

Fleiri eru nú látnir af völdum kórónuveirunnar á Ítalíu en í Kína. Tala látinna hækkaði um 427 í gær og þar með eru alls 3405 látnir í landinu. Kalla hefur þurft út ítalska herinn í Bergamo til að flytja lík þeirra sem hafa látist úr Covid-19-sjúkdómnum til brennslu, svo alvarlegt er ástandið.


Tengdar fréttir

„Það geta í raun allir veikst alvarlega“

Íslendingum með kórónuveiruna fjölgar hratt en á síðustu tveimur dögum hafa vel á annað hundrað greinst með veiruna en smitum hefur fjölgað um þriðjung. Þá eru taldar miklar líkur að ástralskur ferðamaður um fertugt hafi látist af völdum COVID-19 hér á landi.

Ítalía fer fram úr Kína í dauðsföllum

Dauðföll vegna kórónuveirufaraldursins á Ítalíu eru nú fleiri en í Kína þar sem veiran skaut fyrst upp kollinum. Alls hafa nú rúmlega 3.400 manns látið lífið á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×