Ríkisstjórn Íslands kynnti væntanlegar efnahagsaðgerðir sínar vegna faraldurs kórónuveiru fyrir leiðtogum stjórnarandstöðu og fulltrúum atvinnulífs og verkalýðshreyfingar nú um hádegisbil. Þessar aðgerðir verða kynntar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar klukkan eitt í Hörpu, sem streymt verður í beinni útsendingu á Vísi.
Leiðtogar flokkanna voru sammála um það í samtali við fréttastofu nú fyrir hádegi að leggja þyrfti flokkapólitík til hliðar og reyna að takast á við þann mikla vanda sem framundan er.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar kom ranglega fram að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar hefði setið fundinn í stjórnarráðinu í morgun. Þorgerður Katrín er í sóttkví og sat því ekki fundinn. Það gerði Þorsteinn Víglundsson varaformaður Viðreisnar í hennar stað. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.

