Sport

Hilmar með langt kast í snjónum

Sindri Sverrisson skrifar
Hilmar Örn Jónsson í snjónum í Laugardal í gær þar sem hann átti sitt næstlengsta kast á ferlinum.
Hilmar Örn Jónsson í snjónum í Laugardal í gær þar sem hann átti sitt næstlengsta kast á ferlinum. SKJÁSKOT/RÚV

Það er lítið um íþróttamót þessa dagana vegna aðgerða til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar en þó fór fram vetrarkastmót í Laugardalnum í gær þar sem keppt var í kringlukasti og sleggjukasti.

Sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson freistar þess að komast á Ólympíuleikana í Tókýó og safnar til þess stigum á mótum, og taldi mótið í gær til stiga á heimslista. Hilmar kastaði 74,16 metra í gær sem er hans næstlengsta kast frá upphafi. Árangurinn er athyglisverður í ljósi þess hvernig aðstæður voru í gær; snjókoma og kuldi. Íslandsmet Hilmars er 75,26 metrar.

Ólympíulágmarkið í sleggjukasti er 77,50 metrar en einnig er hægt að komast á leikana í gegnum stöðu á heimslista. Þeir 32 efstu á heimslista komast á leikana og er Hilmar nú í 41. sæti. Hann gæti fikrað sig upp listann þegar stigin frá mótinu í gær koma inn.

Hilmar sagði í samtali við RÚV eftir mótið að hann væri bjartsýnn á að ná ólympíulágmarkinu á þessu ári. Myndband af kasti hans má sjá á vef RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×