Erlent

Heilsa Alberts Mónakófursta góð eftir smit

Andri Eysteinsson skrifar
Albert II, furstinn af Mónakó.
Albert II, furstinn af Mónakó. Getty/Paul Archuleta

Furstinn af Mónakó, Albert II, fyrsti þjóðhöfðinginn til þess að greinast með kórónuveirusmit segist líða ágætlega nokkrum dögum eftir að hann greindist með veiruna.

Albert, sem er 62 ára gamall og greindist með kórónuveiruna 19. mars síðastliðinn ræddi heilsu sína við People og sagði þar að læknar hans væru sáttir með stöðun. „Smá hiti og smá hósti,“ sagði furstinn sem nú sætir einangrun í íbúð sinni í höllinni.

Furstinn gaf sýni undir nafnleynd síðasta mánudag en hann hefur farið mikinn í baráttunni gegn veirunni í smáríkinu Mónakó.

Í yfirlýsingu frá Grimaldi fjölskyldunni sagði að Albert væri virkilega þakklátur fyrir allar kveðjurnar sem honum hafi borist á síðustu dögum. Vel væri fylgst með heilsu hans og ekki þurfi að hafa áhyggjur af honum.

Furstinn hvatti einnig heimsbyggðina og samlanda sína til að sýna þolinmæði, hugrekki, samhug og trú í baráttunni gegn kórónuveirunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×