Viðskipti erlent

Tekist á um björgunarpakka á Bandaríkjaþingi

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandaríska þinghúsið í Washington-borg séð út um glugga skrifstofubyggingar þingsins. Faraldurinn er þegar farinn að hafa áhrif á störf þingsins. Nokkrir þingmenn repúblikana komust ekki til atkvæðagreiðslu um björgunarpakkann í gær því þeir voru í sóttkví.
Bandaríska þinghúsið í Washington-borg séð út um glugga skrifstofubyggingar þingsins. Faraldurinn er þegar farinn að hafa áhrif á störf þingsins. Nokkrir þingmenn repúblikana komust ekki til atkvæðagreiðslu um björgunarpakkann í gær því þeir voru í sóttkví. Vísir/EPA

Öldungadeild Bandaríkjaþings felldi margmilljarða dollara björgunarpakka sem á að hleypa lífi í hagkerfið í skugga kórónuveirufaraldursins í gær. Demókratar gagnrýna að frumvarpið hygli stórfyrirtækjum og komi ekki nægilega til móts við almenna borgara. Bandaríski seðlabankinn aflétti takmörkunum á uppkaupum á ríkisskuldabréfum í dag.

Björgunarpakkinn sem liggur fyrir Bandaríkjaþingi hljóðar upp á hátt í tvær biljónir (milljón milljónir) dollara og felur meðal annars í sér beingreiðslur til almennra borgara upp á 1.200 dollara fyrir fullorðna, jafnvirði tæpra 170.000 íslenskra króna. Einnig er lagður til 500 milljarða dollar sjóður til að lána fyrirtækjum, borgum og ríkjum og 350 milljarða dollarar til að hjálpa litlum fyrirtækjum að greiða laun.

Aukinn meirihluta þarf til að frumvarpið verði að lögum en atkvæðagreiðslan fór 47-47. Demókratar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu og nokkrir þingmenn repúblikana, sem eru með meirihluta í öldungadeildinni, voru fjarri góðu gamni vegna þess að þeir eru í sóttkví. Einn þingmaður, repúblikaninn Rand Paul, er smitaður af kórónuveirunni.

Andstaða demókratar skýrist af því að þeir telja frumvarpið ekki verja almennt launafólk. Þannig eru engin skilyrði í frumvarpinu sem koma í veg fyrir að fyrirtæki segi upp starfsfólki þrátt fyrir að þau þiggi ríkisaðstoð. Þeir eru einnig ósáttir við að úthlutanir úr 500 milljarða dollara lánasjóðum sem repúblikanar vilja koma á fót yrðu nær alfarið í höndum fjármálaráðuneytisins, að sögn Washington Post.

Steve Mnuchin, fjármálaráðherra, vísaði þeirri gagnrýni á bug í viðtali við Fox Business í morgun.

„Þetta eru ekki almannabætur fyrir fyrirtæki. Þetta hjálpar öllum bandarískum launþegum,“ fullyrti hann.

Frumvarpið er þó ekki dautt því viðræður standa enn yfir viðræður á milli Hvíta hússins og flokkanna á þingi um breytingar á því. Eftir atkvæðagreiðsluna sagði Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, að flokkarnir væru nú nær samkomulagi en á nokkrum öðrum tímapunkti síðustu tvo sólarhringana.

Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, á blaðamannafundi fyrr í þessum mánuði.AP/Jacquelyn Martin

Kaupir eins mikið af skuldabréfum og þurfa þykir

Tíðindin af skipbroti björgunarpakkans lagðist illa í fjármálamarkaði í morgun. Áhyggjur markaðarins voru þó að einhverju leyti linaðar þegar bandaríski seðlabankinn tilkynnti um fordæmalausa afléttingu á öllum takmörkunum á kaupum á ríkisskuldabréfum til að halda lánamarkaði gangandi. Bankinn hefur aldrei gengið svo langt, ekki einu sinni í fjármálakreppunni árið 2008, að sögn Washington Post.

„Það er orðið ljóst að hagkerfi okkar stendur frammi fyrir verulegri röskun. Seðlabankinn er ákveðinn í að nota öll tól sem honum standa til boða til að styðja heimili, fyrirtæki og bandaríska hagkerfið í heild á þessum erfiðu tímum,“ sagði bankinn í yfirlýsingu í morgun.

Þá boðar bankinn enn frekari aðgerðir á næstunni til þess að auka aðgang lítilla og meðalstórra fyrirtækja að lánsfé, að sögn Reuters. Bankinn ætlar ennfremur að kaupa ákveðin fyrirtækjabréf í fyrsta skipti í sögunni.


Tengdar fréttir

Vilja beinar greiðslur til Bandaríkjamanna vegna faraldursins

Hluti af risavöxnum neyðaraðgerðapakka Bandaríkjastjórnar vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins gæti verið beinar peningagreiðslur til almennings. Pakkinn er sagður geta orðið sá stærsti frá því í kreppunni miklu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×