Innlent

Engin próf í húsakynnum Háskóla Íslands í vor

Sylvía Hall skrifar
Engin próf verða í húsakynnum Háskóla Íslands í vor.
Engin próf verða í húsakynnum Háskóla Íslands í vor. Vísir/Vilhelm

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur tilkynnt nemendum að próf verði ekki haldin í húsakynnum háskólans í vor. Þetta var ákveðið eftir fund neyðarstjórnar Háskóla Íslands í morgun.

Ekki liggur fyrir hvernig framkvæmdin verður en fræðslusvið og deildir munu ákveða tilhögun og verður breytt framkvæmd kynnt eigi síðar en 30. mars næstkomandi. Munu umsjónarkennarar í samráði við deildirnar ákveða hvernig framkvæmd námsmatsins verður.

Stjórnendur skólans hvetja jafnframt fræðisvið, deildir og kennara til að taka tillit til þeirra krefjandi aðstæðna sem eru nú uppi í samfélaginu og þannig létta álagi af nemendum í tengslum við námsmat. Markmiðið sé að nemendur geti lokið þeim námskeiðum sem þeir eru skráðir í.

Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs, segir jákvætt að von sé á niðurstöðu. Nýlega hafi Stúdentaráð staðið fyrir könnun á líðan nemenda vegna COVID-19 og þar hafi framkvæmd lokaprófa verið stórt áhyggjuefni.

„Ein helsta athugasemdin sem við fengum var að óvissan væri búin að vera of mikil of lengi,“ segir Jóna Þórey í samtali við Vísi. Óvissan sé þó enn til staðar en hún voni að deildirnar ákveði framkvæmd í samráði við nemendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×