Enski boltinn

Leikmenn eru raunsæir og sætta sig við að þeirra bíða leikir án áhorfenda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk stillir sér upp með Bobby Barnes eftir að hollenski miðvörðurinn var kosinn leikmaður ársins af leikmannasamtökunum í fyrra.
Virgil van Dijk stillir sér upp með Bobby Barnes eftir að hollenski miðvörðurinn var kosinn leikmaður ársins af leikmannasamtökunum í fyrra. Getty/Barrington Coombs

Æðsti maður leikmannasamtaka enska fótboltans segir leikmennina vita vel að þeir þurfa að sætta sig við ýmislegt og fórna ýmsu til að hægt verði að klára tímabilið í sumar.

Ensku deildunum var frestað til 30. apríl en það er allt eins líklegt að leikirnir hefjist ekki aftur fyrr en í júnímánuði.

Bobby Barnes er yfirmaður Professional Footballers' Association í Englandi og The Athletic fór yfir stöðuna með honum.

Barnes segir að leikmenn séu raunsæir og að þeir vita að þeirra bíða leikir án áhorfenda ætli menn að klára 2019-20 tímabilið.

„Í fullkomnum heimi værum við að spila fyrir framan áhorfendur en ég held að staðan sé sú að það komi ekkert annað til greina en að spila án þeirra,“ sagði Bobby Barnes í viðtalinu við The Athletic.

„Leikmennirnir eru raunsæir. Við erum ekki í fullkomnum heimi og þeir leikmenn sem ég hef rætt við sætta sig við það sem við þurfum að gera,“ sagði Bobby Barnes.

„Ég hef talað daglega við leikmenn og meðal þess ræddum við um að þeir vildu ekki spila leikina án áhorfenda ef það væri einhver möguleiki á því,“ sagði Bobby.

„Fótboltin snýst um stuðningsmennina. Raunveruleikinn er hins vegar sá að laun leikmanna koma aðallega í gegnum sjónvarpstekjur og þar eru samningarnir sem þarf að standa við,“ sagði Barnes.

„Ef við í samtökunum eigum að geta varið laun leikmanna okkar þá gæti eina raunhæfa leiðin verið að klára tímabilið. Það verður því að vera þannig. Ef við ætlum að klára tímabilið áður en við þurfum að fara að huga að því næsta þá þurfum við að vera opin fyrir öllum leiðum í boði,“ sagði Bobby Barnes.

Það er því orðið mjög líklegt að enska úrvalsdeildin verði kláruð fyrir framan tómar stúkur, kannski í maí en líklega frekar í júní eða júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×