Sport

Sjá Ólympíueldinn fyrir sér sem ljósið við enda ganganna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólympíueldurinn er kominn til Japans og hann verður þar þangað til að Ólympíuleikarnir hefjast á næsta ári. Hann mun því ekki fara aftur til Grikklands.
Ólympíueldurinn er kominn til Japans og hann verður þar þangað til að Ólympíuleikarnir hefjast á næsta ári. Hann mun því ekki fara aftur til Grikklands. Getty/Kyodo News

Alþjóðaólympíunefndin og skipuleggjendur Ólympíuleikanna í Tókýó sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í dag þar sem þeir staðfestu að sumarólympíuleikarnir 2020 fari ekki fram fyrr en sumarið 2021. Leikarnir munu samt ekki skipta um nafn.

Ákvörðunin var tekin eftir að myndbandsfund í dag á milli Abe Shinzo, forsætisráðherra Japans og Thomas Bach, forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar. Það voru líka aðrir með þeim á fundinum, bæði frá japönsku skipulagsnefndinni en einnig aðrir háttsettir hjá Alþjóðaólympíunefndinni.

Í yfirlýsingunni kemur fram að Abe Shinzo og Thomas Bach hafi báðir gert sér grein fyrir erfiðri stöðu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og fundurinn hafi verið bæði vinalegur og uppbyggilegur.

Niðurstaðan var að Ólympíuleikarnir geti ekki farið fram í sumar og þeir verði settir á seinna í síðasta lagi sumarið 2021. Þetta er gert til að passa upp á heilsu keppenda og alla sem tengjast Ólympíuleikunum með einhverjum hætti.

„Leiðtogarnir voru sammála um það að Ólympíuleikarnir í Tókýó geti verið vonargeisli fyrir heiminn á þessum erfiðu tímum og að Ólympíueldurinn verði ljósið við enda ganganna fyrir allan heiminn,“ var í yfirlýsingunni og Ólympíueldurinn, sem var kominn til Japans mun ekki fara aftur til Grikklands.

Það kom líka fram í yfirlýsingunni að 32. sumarólympíuleikarnir mun áfram vera kallaðir Ólympíuleikarnir 2020.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×