Innlent

Eiga margir í erfið­leikum með að finna greiða leið heim

Atli Ísleifsson skrifar
Um 2.500 í gagnagrunni borgaraþjónustunnar eru skráðir með óvissan heimferðardag, sem bendir til þess að þau dvelji langdvölum erlendis.
Um 2.500 í gagnagrunni borgaraþjónustunnar eru skráðir með óvissan heimferðardag, sem bendir til þess að þau dvelji langdvölum erlendis. Vísir/Vilhelm

Um 4.500 manns sem skráðir eru í gagnagrunn borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins er enn erlendis að því er fram kemur í stöðuskýrslu almannavarna frá því í gær.

Fyrirspurnum til borgaraþjónustunnar hefur fækkað nokkuð síðustu daga en þær verða að sama skapi flóknari viðureignar. Segir að töluvert hafi borið á því að Íslendingar eigi í erfiðleikum með að finna greiða leið heim vegna landamæralokana og hertra skilyrða fyrir millilendingum.

Af þessum 4.500 eru tæplega þúsund manns með áætlaða heimför fyrir mánaðamót og þúsund til viðbótar ætla að snúa heim næstu tvo mánuði. Síðan eru um 2.500 skráðir með óvissan heimferðardag, sem bendir til þess að þau dvelji langdvölum erlendis.

Allir Íslendingar sem eru á ferðalagi erlendis, og þeir sem dveljast þar langdvölum en hyggja á heimkomu, hafa verið hvattir til að skrá sig í grunninn.

Langstærsti hópurinn er enn á Spáni og þar eru um 1.500 manns skráðir nú. Um 600 eru skráðir í Bandaríkjunum, rúmlega 460 á Norðurlöndunum og um 260 í Bretlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×