Innlent

Hnúka­þeyr gæti sums staðar hækkað loft­hita all­nokkuð

Atli Ísleifsson skrifar
Spákort Veðurstofunnar fyrir hádegið, eins og það leit úr um klukkan 7.
Spákort Veðurstofunnar fyrir hádegið, eins og það leit úr um klukkan 7. Veðurstofan

Veðurstofan spáir áframhaldandi útsynningi, það er suðvestanátt með éljum sunnan og vestantil. Má reikna með að vindur verði á bilinu 8 til 15 metrum á sekúndu og hitinn víða frá 0 til 5 stigum.

Spáð er bjartviðri á austanverðu landinu þar sem hnjúkaþeyr gæti sums staðar hækkað lofthita allnokkuð. Má þannig búast við fimm til tíu stiga hita á Austfjörðum ef allt gengur eftir.

Á vef Veðurstofunnar segir að á morgun lægi á vestanverðu landinu og dragi úr ofankomunni en þá snúist í norðvestanátt austantil og gæti verið allhvasst suðaustanlands fram eftir degi.

„Annað kvöld tekur hæð suður í höfum að miklu leyti stjórnina á veðrinu og lægir um allt land.

Það er útlit fyrir heldur mildara loft yfir landinu á laugardag og sunnudag, en kólnar svo aftur eftir helgi, jafnvel með norðan hríð norðantil á aðfaranótt miðvikudags, þó er ekkert endanlegt í þeim efnum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Vestlæg átt, 8-15 m/s en lægir þegar líður á daginn. Allvíða dálítil él en úrkomulítið eftir hádegi. Frost 0 til 5 stig, en um og yfir frostmarki við S-ströndina.

Á laugardag: Vestan 5-13 og þykknar smám saman upp og dálítil súld eða rigning vestantil annars þurrt að kalla. Hlýnar í veðri og hiti víða yfir frostmarki um kvöldið.

Á sunnudag: Vestan 8-15 og skýjað með köflum en úrkomulítið. Hiti 2 til 7 stig, hlýjast A-lands.

Á mánudag: Stíf vestanátt með rigningu, en þurrt að kalla A-lands. Áfram milt.

Á þriðjudag: Útlit fyrir hægari vestlæga átt og ört kólnandi veður á norðanverðu landinu en dálitl vætu og mildu veðri sunnan og suðvestantil en líkur á norðan hríð norðantil um kvöldið.

Á miðvikudag: Líkur á norðanátt, stöku éljum norðantil og talsverðu frosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×