Davíð Stefánssyni, öðrum ritstjóra Fréttablaðsins, hefur verið sagt upp störfum. Um er að ræða hluta af niðurskurðaraðgerðum sem kynntar voru á starfsmannafundi á fimmta tímanum í dag.
Sunna Karen Sigurþórsdóttir, sem ritstýrt hefur Frettabladid.is, mun sömuleiðis hætta störfum.
Garðar Örn Úlfarsson, sem starfað hefur í lengri tíma á Fréttablaðinu tekur við fréttastjórn á blaðinu ásamt Ara Brynjólfssyni.
Töluverðar breytingar hafa átt sér stað á Fréttablaðinu undanfarin misseri. Fréttablaðið rann saman við Hringbraut á síðasta ári og í farvatninu er samruni við DV að fengnu samþykki frá Samkeppniseftirlitinu.
Á vef Fréttablaðsins er vísað í tilkynningu frá Torgi þar sem segir að Kristjón Kormákur Guðjónsson verði einn ritstjóri frettabladid.is og hringbraut.is.
Ennfremur verður Jón Þórisson ritstjóri Fréttablaðsins og ábyrgðarmaður, jafnframt aðalritstjóri.
„Ég er að hverfa til annarra verkefna. Ég geri ráð fyrir því að vera í verkefnum niðri á blaði fram á sumar. Svo ætla ég að taka mér gott sumarfrí og ný verkefni næsta haust,“ segir Davíð Stefánsson í samtali við Vísi.