Bandaríski leikarinn Mark Blum, sem þekktastur er fyrir leik sinn í kvikmyndunum Desperately Seeking Susan og Crocodile Dundee, er látinn, 69 ára að aldri, af völdum kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum kvikmyndaleikara í Bandaríkjunum (Screen Actors Guild).
Þó að Blum hafi getið sér gott orð fyrir leik í kvikmyndum og sjónvarpi var hann einna afkastamestur á sviði. Hann var tíður gestur á Broadway í Bandaríkjunum og lék m.a. í sviðsetningu á Twelve Angry Men.
Líkt og áður segir lék hann í kvikmyndinni Desperately Seeking Susan ásamt Madonnu og Rosönnu Arquette árið 1985 en nú síðast fór hann með aukahlutverk í sjónvarpsþáttunum Succession á HBO, Netflix-þáttaröðinni You og Mozart in the Jungle, sem Amazon framleiðir.
Hér að neðan má sjá Blum í hlutverki Gary í Desperately Seeking Susan.
Margir hafa minnst Blum með hlýju eftir að greint var frá andláti hans, þ. á m. leikararnir Cynthia Nixon og Zach Braff.
Andlát Blum er annað dauðsfallið af völdum kórónaveirunnar sem skekur leiklistarsenu New York-borgar, að því er fram kemur í frétt CNN. Leikskáldið Terrence McNally lést úr veirunni fyrr í vikunni. Hann var 81 árs.