Sport

Ólympíuleikarnir í Tókýó hefjast 23. júlí 2021

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólympíuleikunum í Tókýó var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.
Ólympíuleikunum í Tókýó var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. vísir/getty

Ákveðið hefur verið að Ólympíuleikarnir í Tókýó hefjist 23. júlí á næsta ári. Þeim lýkur 8. ágúst.

Alþjóða ólympíunefndin og framkvæmdanefnd Ólympíuleikanna sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis í dag.

Ólympíuleikarnir í Tókýó áttu að fara fram dagana 24. júlí til 9. ágúst 2020. Þeim var hins vegar frestað vegna kórónuveirufaraldursins.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ólympíuleikum er frestað. Þeim var þrisvar sinnum aflýst á meðan fyrri og seinni heimsstyrjaldirnar stóðu yfir.

Einnig hefur verið ákveðið hvenær Ólympíumót fatlaðra fer fram. Það á að hefjast 24. ágúst og ljúka 5. september.

Anton Sveinn McKee er eini Íslendingurinn sem hefur tryggt sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Tókýó. Hann heldur keppnisrétti sínum þótt Ólympíuleikarnir hafi verið færðir fram um eitt ár.

Þetta verður í annað sinn sem Ólympíuleikarnir fara fram í Tókýó. Borgin hélt einnig Ólympíuleikana 1964.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×