Íslenski boltinn

KSÍ skoðar að taka upp umspil í Inkasso deildinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Knattspyrnusamband Íslands skoðar möguleikann á því að taka upp umspil um sæti í efstu deild í Inkassodeild karla.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, ræddi við Hörð Magnússon í kvöldfréttum Stöðvar 2 um mögulegar breytingar á keppnisfyrirkomulagi íslenska fótboltans.

„Ég hef velt því upp og beðið um skoðun hérna innanhúss á að taka upp umspilsfyrirkomulag í Inkassodeildinni,“ sagði Guðni.

„Ég held að það gæti verið mjög spennandi fyrirkomulag. Ég held að þetta gæti gert gríðarlega mikið fyrir deildina.“

Efsta liðið, deildarmeistararnir, færu beint upp í úrvalsdeildina en liðin í öðru til fimmta sæti færu í umspil um eitt laust sæti.

Þá sagði Guðni bikarkeppni neðri deilda einnig vera í skoðun.

Síðustu misseri hefur aðeins verið rætt um að lengja þurfi keppnistímabilið í efstu deild, meðal annars til þess að gera liðin samkeppnishæfari í Evrópu.

„Ég myndi segja að svona hugmyndir sem koma fram eru góðra gjalda verðar,“ sagði Guðni.

„Mér finnst áhugavert að skoða þetta og við munum gera það á næstu vikum og mánuðum, og þetta er alltaf í skoðun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×