Þverpólitískur hópur fólks hyggst bjóða fram lista í Reykjavík undir nafninu Höfuðborgarlistinn í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Björg Kristín Sigþórsdóttir mun leiða listann sem hyggst kynna stefnumál sín klukkan 15 á morgun við Ráðhús Reykjavíkur.
„Þetta er þverpólitískur hópur og við samanstöndum af 46 ólíkum einstaklingum sem erum sammála um að standa vörð um sérstöðu Reykjavíkur sem höfuðborg landsins þannig að hún geti verið stolt landsmanna,“ segir Björg Kristín í samtali við Vísi.
„Helstu áherslur okkar eru húsnæðisstefna sem verður sérsniðin fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem eru að kaupa sína fyrstu eign. Svo stjórnkerfið og skipulag Reykjavíkurborgar að það verði einfaldað auk þess að aðgengi borgarbúa að borgarstjóra, kjörnum fulltrúum og stjórnkerfinu verði auðveldað. Svo verða kynntar tafarlausar aðgerðir í mengunarmálum og hljóðvist.“
Björg segir að fjölmennur hópur standi fyrir framboðinu, en gefur þó ekki upp nákvæma tölu. Hún segir þó að fullmannaður 46 manna listi liggi fyrir.
„Við stofnuðum listann núna fyrir um 20 dögum síðan. Það sýnir kraftinn í okkur, hvað koma skal í borginni.“
Höfuðborgarlistinn hyggst bjóða fram í Reykjavík
Hulda Hólmkelsdóttir skrifar

Mest lesið




Ofbýður hvað Reykjavík er ljót
Innlent






Ása Steinars vann sigur gegn bandarísku markaðsfyrirtæki
Viðskipti erlent