Innlent

Stjörnuskoðun á föstudag: Slökkva á götulýsingu til að betur megi njóta töfra himingeimsins

atli ísleifsson skrifar
Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason. Visir/Eyþór
Slökkt verður á götulýsingu á háskólasvæðinu, í miðborg og vesturbæ Reykjavíkur í 45 mínútur annað kvöld þegar blásið verður til stjörnuskoðunar undir leiðsögn Sævars Helga Bragasonar stjörnufræðimiðlara.

Safnast verður saman fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands klukkan 20 og verður sjónum beint til himins.

Í Facebook-síðu viðburðarins segir að sjónum gesta og sjónaukum á staðnum verði meðal annars beint að vaxandi mána, vetrarbrautinni og vonandi norðurljósum.

„Markmið viðburðarins er að hvetja fólk til þess að njóta náttúrunnar og himingeimsins nú þegar veður er stillt og veðurskilyrði til stjörnuskoðunar eru með besta móti. Sævar Helgi Bragason mun lýsa því sem fyrri augu ber á kvöldhimninum.“

Götulýsing verður slökkt milli klukkan 20.30 og 21.15 í vesturbæ og miðbæ. Nánar má fræðast um atburðinn á Facebook-síðu viðburðarins.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×